Það lá mikil eftirvænting í loftinu og allir voru þátttakendur vongóðir um að leiðsöguhundur myndi hjálpa þeim í þeirra aðstæðum og auka þeim sjálfstæði í leik og starfi. Helena Björnsdóttir fyrrum Atvinnumálafulltrúi félagsins tók á móti hópnum ásamt starfsmönnum skólans og var hún kærkomin viðbót við hópinn sem nú var orðinn tíu manns samanlagt.
Helena er búsett í Noregi og hefur margra ára reynslu af notkun leiðsöguhunds. Hún var með Fönix leiðsöguhundinn sinn með sér og við fengum öll kærkomið tækifæri til þess að fylgjast með samstarfi þeirra í nálægð á meðan á námskeiðinu stóð. Helena var mikilvægur tengiliður milli okkar Íslendingana og starfsmanna skólans bæði vegna tungumálsins, en ekki síður vegna þess hversu kunnug hún er öllum þeim aðstæðum sem komið geta upp við notkun leiðsöguhunda. Hún hefur líka haldið úti bloggsíðu allt síðasta ár þar sem hún hefur haldið dagbók um samstarf sitt og leiðsöguhundsins Fönix og hafa allir sem fylgst hafa með samstarfi þeirra hrifist af frásögnum hennar og lært af öllum þeim margvíslegu uppákomum sem þar hafa komið fram. Slóðin á bloggsíðuna hennar Helenu http://www.fonix.blog.is/blog/fonix/ en þar er líka að finna ítarlega frásögn hennar af námskeiðinu og fjölmargar myndir af þátttakendum námskeiðsins frá Íslandi.
Þó Leiðsöguhundaskólinn hafi haldið fjölmörg fornámskeið var þetta í fyrsta sinn sem slíkt námskeið var haldið fyrir aðra en norðmenn og því að mörgu að hyggja og mikilvægt að túlka samskiptin nákvæmlega svo allir gætu tjáð sig á sínu móðurmáli um viðkvæm mál sem óneitanlega koma upp þegar verið er að velja saman mann og hund sem eiga eftir að búa og vinna náið saman í mörg ár.
Þátttakendur bjuggu á skólanum og var aðbúnaðurinn til mikillar fyrirmyndar. Allir fengu sitt eigið herbergi og maturinn var eins og á fimm stjörnu veitingahúsi, bæði góður og mikill. Sjálft námskeiðið byrjaði á þriðjudagsmorgun í kennsluherbergi skólans þar sem forstöðumenn skólans kynntu sögu skólans og þjálfunarferli leiðsöguhundsins. Farið var yfir heilbrigðismál, tryggingarmál og rætt um hundasálfræði á almennum nótum. Þátttakendur sýndu mikinn áhuga og fljótt kom í ljós að allir höfðu kynnt sér vel það kennsluefni sem þeim hafði verið sent áður en lagt var í ferðina. Þetta atriði kom starfsmönnum skólans þægilega á óvart þar sem það hafði ekki verið reynt áður að senda þátttakendum kynningarefni í þessum mæli áður en námskeiðin hófust. Reynslan af þessu var það jákvæð að nú velta stjórnendur skólans því fyrir sér hvort þessi aðferð ætti ekki að vera frekar regla en undantekning í framtíðinni.
Eftir hádegi fyrsta daginn fór síðan hópurinn í stutta heimsókn í hundaræktunarstöðina þar sem skólinn sér að stærstum hluta um eigin hundaræktun. Þar fæðast um það bil níutíu hvolpar á ári og stærsti hlutinn er af Labradorkyni. Þegar hvolparnir eru átta vikna gamlir flytja þeir úr hundastöðinni og er komið fyrir hjá fósturfjölskyldum þar sem þeir búa í um það bil átján mánuði. Á þessum tíma hittast fósturfjölskyldurnar með hvolpana mánaðarlega á skólanum en eftir þessa átján mánuði er síðan prófað hversu margir þeirra henta til þjálfunar sem leiðsöguhundur.
Við prófunina eru hundarnir metnir við allar þær aðstæður sem mætt geta leiðsöguhundi, það er farið með þá á bóndabæi til þess að sjá viðbrögð þeirra við öðrum dýrum, á leikskóla, skóla, elliheimili, stórar verslunarmiðstöðvar og umferðaþungar götur til þess að kanna viðbrögð þeirra við sem flestu því sem búast má við að mæti hundinum í starfi. Hundur sem bregst vel við öllum þessum ólíku aðstæðum, lætur auðveldlega að stjórn og hefur gott sjálfstraust getur orðið góður leiðsöguhundur. Þeir hundar sem standast ekki prófið eru seldir, annaðhvort til annarra verkefna innan hundaþjálfunar eða til fósturfjölskyldunnar. Aðeins lítill hluti þeirra níutíu hvolpa sem fæðast árlega í hundaræktunarstöðinni standast allar kröfur leiðsöguhundaskólans til frekari þjálfunar eða tæplega helmingur af heildarfjöldanum.
Þetta var að öllu leyti fróðleg og skemmtileg heimsókn og ekki laust við að menn væru ennþá áhugasamari um að fá sér leiðsöguhund eftir að hafa kynnst dýrunum sjálfum í umhverfi sínu. Síðan var fundað áfram og farið vel yfir kosti þess og galla að hafa leiðsöguhund. Kostir slíks hjálpartækis eru flestum ljósir og felast ekki hvað síst í auknu frjálsræði, sjálfstæði og öryggi. Það er þó mikilvægt að sem flestir geri sér ljóst að það fylgja því líka ókostir svo sem meiri binding, óhreinindi á heimili og svo geta dýrin að sjálfsögðu veikst ekki síður en notandinn.
Það er einnig margt annað sem hafa þarf í huga sem ekki er eins augljóst en ekki síður mikilvægt. Það þurfa allir sem umgangast leiðsöguhund hvort sem það er á heimilinu eða í ytra umhverfi hundsins að læra að rjúfa aldrei einbeitingu hundsins við vinnu sína. Það er áríðandi að gæla ekki við hundinn að ástæðulausu eða stinga að honum góðgæti, það er áríðandi að notandinn sé sá sem siðar hundinn til og sér um að hundurinn gangi þannig um heimilið og sitt nánasta umhverfi að allir séu sáttir. Það er yfirleitt til tjóns að hjálpa notanda hundsins við þessa þjálfun þó það sé að sjálfsögðu alltaf vel meint.
Það er í eðli hundsins að búa í flokk og þessi arfleifð gerir það að verkum að hundurinn velur sér leiðtoga sem hann fylgir í einu og öllu en hann skipar líka öllum öðrum í sínu nánasta umhverfi í ákveðin hlutverk innan flokksins. Þetta þýðir að hundurinn er háður því að fastar skorður og reglur séu virtar í einu og öllu og það getur oft reynst hægara sagt en gert í daglegu amstri okkar þegar einbeitingin er misjafnlega skörp. Allt gekk þetta vel fyrir sig og nemendurnir ákaflega vel vakandi og áhugasamir.
Öll samskipti voru túlkuð svo tryggt væri að allir aðilar skildu námsefnið á sínu móðurmáli og gætu í huganum mátað sig við ólíkar aðstæður í sínu lífi. Dagurinn hafði verið langur og strangur og þegar kallað var til kvöldverðar voru allir orðnir svangir og lúnir eftir viðburðarríkan en ánægjulegan dag.
Á miðvikudagsmorgunn var haldið áfram að fara yfir bóklega hluta námskeiðsins og talað um þann undirbúning sem þarf að fara fram í lífi hvers og eins áður en leiðsöguhundur kemur inn í líf viðkomandi. Þá er talað um heimilisaðstæður, aðstæður á vinnustað og komið inn á allar aðstæður í tilvonandi umhverfi hundsins hvort sem er í borg eða strjálbýli. Það sköpuðust af þessum hluta miklar umræður og margvíslegar spurningar spruttu fram í huga hvers og eins.
Morguninn leið hratt en um hádegið var bóklega kynningarhluta námskeiðsins lokið en framundan voru gönguferðir þátttakenda með þjálfurunum þar ákveða átti eðlilegan gönguhraða hvers og eins ásamt raddblæ og sjálfsöryggi í umferli.
Gengið var um nágreni skólans og fengu allir þjálfarar skólans að kynnast þátttakendum hverjum fyrir sig og leggja fyrir þá spurningar um hvernig þarfir þeirra væru með tilliti til notkunar leiðsöguhunds og hvernig lífsmunstur þeirra var hvers fyrir sig og hver væru þeirra helstu áhugamál. Þetta er mikilvægt til þess að hægt sé að velja hund sem hentar hverjum fyrir sig þar sem allir hafa misjafnar þarfir frá degi til dags og misjafnar aðstæður.
Eftir gönguferðina var síðan rætt einslega við hvern og einn umsækjenda um einkahagi hans og væntingar til leiðsöguhunds. Þetta var ef til vill sá hluti námskeiðsins sem var einna erfiðastur þar sem farið var dýpra í heimilisaðstæður, lífsmynstur, framtíðaráform og notkunarmöguleika leiðsöguhundsins. Viðtölin eru að sjálfsögðu ætluð til þess að skólinn geti gert sér betri grein fyrir því hvers konar hundur henti hverjum einstaklingi en það kemur ekki í veg fyrir það að mönnum líður eins og þeir séu í prófi sem fjallar um það hversu góða stjórn þú hefur á þínu lífi yfirleitt og það er ekki einfalt mál að koma því til skila á 45 mínútum svo vel sé. Þetta gekk engu að síður fram úr skarandi vel og fólk tók þessum hluta eins og öllu öðru með stakri ró. Að kvöldi miðvikudags var stærsta hluta námskeiðsins lokið og framundan var sá hluti sem var mest spennandi.
Á fimmtudeginum áttu allir þátttakendur að fá að prófa að ganga með leiðsöguhund í umferðinni í Oslo. Það var ekki laust við að vissum þunga væri létt af öllum þátttakendum og kvöldið leið hratt við ánægjulegt spjall yfir kvöldkaffi, frábærum kanilsnúðum og öðru góðgæti. Fimmtudagurinn rann upp sæmilega bjartur og þurr. Þátttakendur áttu allir að fá að ganga tvo göngutúra með tvo mismunandi leiðsöguhunda. Hundarnir sem þátttakendur fengu að prófa eru allir komnir á lokastig þjálfunarferlisins og sumir þeirra búnir að standast sín próf sem leiðsöguhundar.
Gönguferðin er enn einn þátturinn í því að þjálfararnir geti valið hverskonar hundur hentar hverjum einstaklingi og gengur þjálfarinn við hlið þátttakandans ásamt túlk og fylgist með því hvernig samstarfið milli hunds og manns gengur. Hvernig göngulagið passar saman, hvernig raddbeiting og líkamstjáning virkar í samstarfinu. Það er að mörgu að huga og margt að læra fyrir bæði mann og hund þegar til kastanna kemur en allt gekk þetta framar vonum og þó að allir þátttakendur hefðu haft miklar væntingar til þessa hjálpartækis þá held ég að allir hafi upplifað leiðsöguhundinn sem ennþá betra hjálpartæki en vonir höfðu staðið til.
Framundan er síðan mánuður sem notaður verður af starfsmönnum skólans til þess að meta niðurstöður námskeiðsins og þá kemur væntanlega í ljós hvernig þjálfararnir meta þörf og hæfni þátttakenda til þess að fá leiðsöguhund og hvernig þeim gengur að finna hunda sem henta til þjálfunar fyrir nákvæmlega þessa einstaklinga.
Það eru því spennandi vikur framundan og eftirvæntingin er mikil. Það er þó ljóst að hvernig sem það fer höfðu allir þátttakendur bæði gagn og gaman af þessu fornámskeiði hjá Leiðsöguhundaskóla norsku Blindrasamtakanna og komu margs vísari til baka bæði um leiðsöguhunda og eigin getu til þess að takast á við nýjar aðstæður.
Öllu starfsfólki skólans verður seint þakkað sú mikla alúð sem lögð var í mótöku hópsins og sú einlæga gestrisni sem við nutum af þeirra hálfu þessa daga á námskeiðinu.
Um kvöldið fór allur hópurinn í bæinn og við kíktum á konungshöllina á leið okkar niður á Karl Johann sem er aðalgatan í Osló. Þar settumst við inn á virðulegt kaffihús og skáluðum fyrir frábæru námskeiði og eftirminnilegum dögum í gamla föðurlandinu.