UM LEIÐSÖGUHUNDA FYRIR BLINDA OG SJÓNSKERTA

UM LEIÐSÖGUHUNDA FYRIR BLINDA OG SJÓNSKERTA

 

Á Íslandi er í dag einn leiðsöguhundur fyrir blinda sem var þjálfaður á Íslandi. Sá er orðinn 9 ára og gigtveikur mjög og þarf að hætta störfum fljótlega. Þessi hundur hefur vissulega komið eiganda sínum að góðum notum þó að þjálfunarferlið hafi ekki verið hið ákjósanlegasta. Hundurinn var þjálfaður til þess að leiða blinda og svo var fundinn notandi.  Hundur og notandi voru ekki valdir saman miðað við gönguhraða,  skap og notkun og eftir að notandinn fékk hundinum úthlutað hafa þeir í raun fengið litla sem enga eftirfylgd eða aðstoð.

 

Nú hefur Blindrafélagið gert samning við Leiðsöguhundaskóla Norsku Blindrasamtakanna, en skólinn er sá stærsti sinnar tegundar í Noregi og hefur 30 ára reynslu af þjálfun leiðsöguhunda.

 

Skólinn er staðsettur rétt fyrir utan Osló og er þar að finna bæði stórt hús þar sem fornámskeið og samþjálfun fara fram og annað hús fyrir hvolpa og hunda sem eru í prófun og þjálfun.  Skólinn fullþjálfar um 30 hunda á ári og eru með eigin hundarækt. Þegar hvolparnir eru 8 vikna eru þeir látnir út til fósturfjölskyldna sem hugsa um þá til 18 mánaða aldurs. Fósturfjölskyldurnar hittast gjarnan einu sinni í mánuði og fá aðstoð og fræðslu frá leiðsöguhundaþjálfara.  Ýmsar hundategundir eru notaðar í þessum tilgangi og er Labrador sú tegund sem mest er notuð.  Golden Retriver, Shefer og Kóngapúðlar eru einnig algengir og er sú síðastnefnda oft valin fyrir ofnæmissjúklinga.

 

Þegar hundarnir eru 18 mánaða gamlir koma þeir aftur til skólans til prófunnar og er þá kannað hvort þeir muni henta sem leiðsöguhundar.  Þá eru þeir látnir prófa flestar þær aðstæður sem leiðsöguhundar geta þurft að mæta í starfi sínu.

 

Að meðaltali eru 4 af hverjum 10 hundum sem koma inn til prófunnar, taldir hæfir til þjálfunar og fara þeir þá áfram í 6 til 9 mánaða þjálfun.  Eftir þá þjálfun eru það yfirleitt sex af hverjum tíu hundum sem teljast ekki hæfir til þess að verða leiðsöguhundar vegna ýmissa vankanta svo sem heilsufars, skorts á andlegum styrk og rólyndi eða ýmsu öðru þar að lútandi.

 

Hundarnir eru svo þjálfaðir bæði í miðborginni, þar sem er mikil umferð og gangstéttar en einnig á vegum úti á landi þar sem engar gangstéttar eru og þeir þurfa að ganga við vinstri vegarkant. Einnig eru hundarnir þjálfaðir í hlýðni og í hindrunarbrautum.  Þeim er kennt að taka eftir hindrunum sem geta verið í tveggja metra hæð jafnt sem til hliðar við notandann svo að hann geti gætt þess að notandinn gangi hvorki uppundir það sem í vegi gæti verið né utan í það.   Í Noregi þurfa hundarnir að standast próf sem heilbrigðis og tryggingaryfirvöld sjá um. Það er mikil vinna og mikill kostnaður að baki hvers leiðsöguhunds og kostar fullþjálfaður leiðsöguhundur í Noregi rúmlega þrjú hundruð þúsund norskar krónur.  Kostnaður við hvern hund á Íslandi verður umtalsvert hærri en í Noregi þar sem til viðbótar við verð fullþjálfaðs hunds kemur ferðakostnaður og kostnaður við þátttöku á fornámskeiði í Noregi, sóttkví fyrir hundana og kostnaður við samþjálfun á Íslandi.

 

 

Þegar fólk sækir um leiðsöguhund hjá Blindrafélaginu skilar það inn útfylltri umsókn ásamt læknisvottorði um almennt heilsufar svo og sjónvottorði frá augnlækni. Sex umsækjendum er þá boðið að koma til Noregs og taka þátt í þriggja  daga fornámskeiði sem fram fer í skólanum.  Búa umsækjendurnir þá í skólanum þessa daga. Markmiðið með þessu námskeiði er að umsækjendur geti lært eins mikið um kosti og galla leiðsöguhunda og mögulegt er og skilið betur hvernig líf með leiðsöguhundi muni vera. 

 

Frá skólans hálfu er mikilvægt að kynnast hverjum umsækjanda vel svo og allri hans aðstöðu svo skólinn geti betur metið hvort leiðsöguhundur henti umsækjanda og hann geti hugsað um hund. Ef svarið við því er jákvætt þá er næst að meta hvers konar hundur gæti helst hentað. Allir tíu þjálfarar skólans taka þátt í þessu þriggja daga námskeiði til þess að hægt sé að gera sér sem besta mynd af hverjum umsækjanda. Fyrir utan heilsufar og sjónina er umferliskunnátta umsækjanda metin. Ef umferli er ekki talið nægilega gott en allt annað talið í góðu lagi, fær umsækjandi frekari umferliskennslu áður en til úthlutun leiðsöguhunds kemur. Umsækjanda er ekki neitað um hund vegna þess að hann vanti frekari umferliskennslu.

 

Þátttaka í fornámskeiði er hvorki bindandi fyrir umsækjanda né skólann. Skólinn getur ákveðið að mæla ekki með leiðsöguhundi fyrir umsækjanda (af ýmsum ástæðum) og eins getur umsækjandi hætt við að fá leiðsöguhund að loknu námskeiði.

 

Fyrir þá umsækjendur sem eru samþykktir hefst vinnan við að finna rétta hundinn fyrir viðkomandi. Þetta er gert samhliða hundaþjálfun í skólanum. Það skiptir sköpum að finna réttan hund fyrir hvern og einn. Hafa þarf í huga við hvaða aðstæður hundurinn er mest notaður.  Gönguhraði hunds og umsækjanda þarf að vera sá sami,  skapgerð þarf að passa saman og taka þarf tillit til þess hvort hundurinn þarf að bíða á vinnustað eða vera einn heima í marga tíma dag hvern. Hvort hann þarf að ganga að mestu í mikilli umferð eða ferðast oft með almenningssamgöngum.  Öll þessi atriði og fleiri eru metin og taka allir þjálfararnir í skólanum þátt í þessu starfi.

 

Þegar rétti hundurinn hefur verið fundinn þarf umsækjandi að taka þátt í samþjálfunarnámskeiði sem tekur um það bil þrjár vikur.  Þar kynnast umsækjandinn og hundurinn betur og læra að ganga saman,  rata um og  æfa hlýðni.  Þar lærir umsækjandi líka almenna umhirðu hundsins, matarvenjur og fleira sem nauðsynlegt er að kunna í komandi sambúð.

 

Að lokinni þessari samþjálfun er teymið prófað til þess að fullvissa alla um að það geti unnið vel saman og sé öruggt í umferðinni. Öryggið er í fyrirrúmi. Í kjölfarið fer umsækjandi með hundinn heim og fær þar þjálfun á heimaslóðum. Þjálfari er þá með teyminu og kennir þeim að rata þær helstu leiðir sem viðkomandi þarf í byrjun. Smám saman er svo hægt að bæta við nýjum gönguleiðum. Talið er þó að hundur og maður þurfi um það bil eitt ár til þess að verða virkilega vel samæfðir og krefst það mikillar vinnu og samviskusemi af hálfu beggja.

 

Eftir ár er teymið talið fullþjálfað og getur unnið saman og komist um tryggt og örugglega. Leiðsöguhundar fá ekki leyfi til þess að starfa lengur en til 11 ára aldurs.  Til þess að tryggja að allt gangi vel fyrir sig er teymið  heimsótt einu sinni á ári næstu fjögur árin. 

 

 

Eins og áður sagði hefur Blindrafélagið nú gert samning við skólann um kaup og þjálfun á fjórum fullþjálfuðum leiðsöguhundum, fornámskeiði umsækjanda í Noregi, samþjálfun notanda og leiðsöguhunds á Íslandi og eftirfylgni í fjögur ár.  Félagsmönnum Blindrafélagsins gefst nú kostur á að sækja um leiðsöguhund og skila inn þeim fylgiskjölum sem greint var frá hér að ofan. Þessar umsóknir verða allar sendar til Noregs þar sem leiðsöguhundaskólinn mun meta umsóknirnar og bjóða allt að sex félagsmönnum að koma og taka þátt í fornámskeiði skólans.

 

Að loknu þessu námskeiði getur leiðsöguhundaskólinn metið umsækjendur og hæfni þeirra til þess að hafa leiðsöguhund og einnig munu þá umsækjendur geta metið hvort þetta hjálpartæki muni henta þeim. Skólinn mun svo hefjast handa við að leita að réttum hundi fyrir hvern þann aðila sem býðst leiðsöguhundur í þessari umferð.  Það getur tekið töluverðan tíma að finna hunda sem henta þessum einstaklingum.

 

Hundarnir verða svo sendir til Íslands.  Þangað koma síðan tveir leiðsöguhundaþjálfarar sem þjálfa munu saman hunda og notendur í þrjár til fjórar vikur. Mun sú þjálfun fara fram eins og í Noregi, bæði þar sem umferð er töluverð og eins á vegum þar sem umferð er minni. Hvert teymi fær einnig þjálfun á sínum heimaslóðum  og á þeim helstu leiðum sem þeir telja sig þurfa í byrjun. 

 

Þegar teymin eru talin örugg og vel samkeyrð fer fram eiginleg afhending hundanna. Hundarnir eru aldrei eign notanda, þetta er öryggisatriði sem gert er til þess að hægt sé að grípa inn ef leiðsöguhundur er ekki nýttur sem slíkur eða ekki er hugsað nægilega vel um hundinn.

 

Notanda verður gert skylt að senda inn skýrslu mánaðarlega fyrsta árið en næstu fjögur árin mun svo skólinn senda leiðsöguhundaþjálfara til Íslands til eftirfylgni. Þá mun þjálfaranum gefast tækifæri til þess að meta teymin og aðstoða við hvaðeina sem upp á kann að hafa komið.  Eftir ár er teymið talið fullþjálfað og getur unnið saman og komist leiðar sinnar tryggt og örugglega. Leiðsöguhundar fá ekki leyfi til þess að starfa lengur en til 11 ára aldurs.

 

Með því að fara út í verkefni með fjóra hunda, munu teymin hafa stuðning hvert af öðru, geta rætt saman, æft saman og stutt hvert annað. Hugsanlegt er einnig að fá til aðstoðar hundaþjálfara á Íslandi sem getur orðið nokkurs konar hjálparþjálfi og aðstoðað við ýmislegt smálegt sem upp getur komið. Slíkt fyrirkomulag er víðast hvar á boðstólum í fylkjum Noregs og hafa þá þessir hjálparþjálfar fengið tilsögn leiðsöguhundaþjálfa skólans.