Tillaga stjórnar Blindrafélagsins að lagabreytingum á aðalfundi félagsins laugardaginn 11. maí 2013

Tillaga stjórnar félagsins að lagabreytingum á aðalfundi laugardaginn 11. maí 2013

 

Tillaga stjórnar Blindrafélagsins að lagabreytingum á aðalfundi félagsins laugardaginn 11 maí 2013.

Eftirfarandi lagabreytingatillögur eru fyrst og fremst hugsaðar til að skýra óljós atriði viðkomandi lagagreina og fjarlægja úr lögunum úrelt ákvæði sem ekki eru lengur virk.

8. gr.
Gerð er tillaga um að 8. gr. verði svohljóðandi:

Aðalfund skal halda eigi síðar en í maílok ár hvert og skal hann boðaður með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal stjórn félagsins undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru. Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund.

Falli atkvæði í kosningum jafnt á frambjóðendur skal hlutkesti látið ráða röð.

Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skulu þær birtar félagsmönnum.

Greinagerð:
Hér er sett inn ákvæði um að hlutkesti skuli ráða röð falli atkvæði jöfn á frambjóðendur.

9. grein c liður.

Gerð er tillaga um að c liður 9 greinar breytist og verði svohljóðandi:

 

”C. Ákveðið árstillag félagsmanna og gjald­daga þess.”

Greinagerð: Hér er gerð tillaga um að það verði tekið út af dagskrá aðalfundar að hann ákveði árstillag ævifélaga. Slíkt hefur ekki verið gert í mörg ár og hvergi í lögum Blindrafélagsins eru nein ákvæði um ævifélaga. Ákvæðið er því úrelt.

 

10. grein.

Gerð er tillaga um að 10. grein laganna verði svohljóðandi:

” Stjórn Blindrafélagsins skal kosin á aðalfundi, hana skipa fimm aðalmenn.  Jafnframt eru kosnir fjórir varamenn. Formaður skal kjörinn sérstaklega til tveggja ára. Stjórnin velur úr hópi sínum varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda.

Stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að árlega skulu kosnir tveir aðalmenn og tveir varamenn og jafnmargir gangi úr stjórn. Varamenn taka sæti aðalmanna er kosnir voru til sama tíma í forföllum þeirra, fyrst sá er fleiri atkvæði hefur að baki sér. Séu varamenn, er kosnir voru til sama tíma, ekki tiltækir skal varamaður, sem kjörinn hefur verið á öðrum aðalfundi, taka sæti stjórnarmanns eftir sömu reglu um atkvæðamagn. Falli stjórnarmaður frá eða gangi úr stjórn félagsins tekur varamaður sæti hans á sama hátt og situr út kjörtíma þess stjórnarmanns.

Félagsmenn og bakhjarlar Blindrafélagsins eru kjörgengir til stjórnar. Þó mega ekki fleiri en tveir úr hópi bakhjarla sitja í stjórn félagsins hverju sinni.“

Greinagerð: Með örlítilli orðalagsbreytingu er hér á skýrari hátt kveðið á um að stjórn Blindrafélagsins er fimm manns og að varamenn verði eingöngu fullgildir stjórnarmenn í forföllum aðalmanna.

 

11. grein.

Gerð er tillaga um að 11. grein laganna verði svohljóðandi:

„Stjórn Blindrafélagsins fer með málefni félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin framkvæmir ákvarðanir aðalfunda og félagsfunda.

Stjórnarfundur er lögmætur hafi allir aðal- og varastjórnarmenn verið sannanlega boðaðir og á fundinn séu mættir a.m.k. þrír sem geta tekið sæti í aðalstjórn samkvæmt ákvæðum 10 greinar.

Tryggt skal að öll mál afgreidd af stjórn hafi meirihluta stjórnar á bak við sig.

Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim og kemur fram fyrir hönd stjórnar. Hann skal vera í fyrirsvari fyrir félagið á opinberum vettvangi.“

Greinagerð: Hér eru gerðar orðalagsbreytingar sem hafa það að markmiði að skýra framkvæmd þessarar greinar í gegnum árin, það er hvað þurfi til að stjórnarfundur teljist löglegur.

Í þriðju málsgrein 11. greinar er gerð efnisbreyting. Hún á að tryggja að meirihluti stjórnar (a.m.k. þrír stjórnarmenn) styðji teknar ákvarðanir.

14. grein.

”Gerð er tillaga um að 14. grein laganna verði svohljóðandi:

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra félagsins og hefur eftirlit með störfum hans. Framkvæmdastjóri félagsins annast daglegan rekstur, starfsmannaráðningar og starfsmannahald í umboði stjórnar.

Stjórn félagsins ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart aðalfundum og almennum félagsfundum, stjórnendur einn fyrir alla og allir fyrir einn, nema sá sem hefur látið bóka ágreiningsatriði í gerðarbók stjórnar.“

Greinagerð: Hér er færð í lagatexta sú hefð og framkvæmd að það sé stjórn sem ráði framkvæmdastjóra sem annist daglegan rekstur og fari með ráðningar annars starfsfólks.

 

17. grein.

”Gerð er tillaga um að 17. grein laganna verði svohljóðandi:

„Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga fyrir stjórn félagsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Skulu reikningar síðan liggja frammi á skrifstofu félagsins, með venjulegu letri, punktaletri og á hljóðformi eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund.“

Greinagerð: Hér er gerð sú breyting gerð að það sé framkvæmdastjóri félagsins sem leggi fram reikninga en ekki gjaldkeri. Það er í samræmi við margra ára hefð og framkvæmd.