Formaður Blindrafélagsins, Kristinn Halldór Einarsson hefur sent bréf til allra sveitastjórnarmanna á landinu, þar sem búsettir eru lögblindir íbúar. Í bréfinu er vakin athygli á leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk sem ekki getur nýtt sér almenningssamgöngur. Reglurnar voru gefnar út af velferðarráðuneytinu í upphafi árs og öðluðust gildi þann 1. febrúar sl. Bréfið var jafnframt sent öllum réttindagæslumönnum fatlaðs fólks, sem og öllum lögblindum einstaklingum á Íslandi.
Í 46 af 75 sveitarfélögum á landinu eru búsettir 662 lögblindir íbúar. Langflestir, eða 327 einstaklingar, eru búsettir í Reykjavík. Það eru Reykjavík og Seltjarnanes sem fram til þessa hafa veitt sínum lögblindu íbúum bestu ferðaþjónustuna, þó hún fari nú hnignandi í Reykjavík vegna skrifræðishindranna sem eru nýtilkomnar. Nokkur sveitarfélög, eins og til dæmis Ísafjörður og Árborg, hafa verið að taka við sér og gera ferðaþjónustusamninga við Blindrafélagið um ferðaþjónustu fyrir lögblinda íbúa sína og er það til eftirbreytni.
Þau sveitarfélög sem nú bjóða lögblindum íbúum sínum upp á ferðaþjónustu í samstafi við Blindrafélagið eru: Akureyri, Álftanes, Árborg, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Reykjavík, Seltjarnanes og Skaftárhreppur. Frekari upplýsingar um Ferðaþjónustu blindra má lesa hér.
Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu við fatlað fólk byggja m.a. 35 grein í lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar er kveðið á um skyldur sveitarfélaga um að útvega þeim fötluðu íbúum sínum, sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur, ferðaþjónustu sem gerir þeim kleyft að lifa sem eðlilegustu lífi við sambærileg lífskjör og aðrir ófatlaðir einstaklingar. Þetta skal m.a. gert með því að leggja mat á perónulegar þarfir hvers og eins og gera einstaklingum kleift að komast á milli staða með jafn greiðum hætti og aðrir þjóðfélagsþegnar. Í 20 grein Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er þetta orðað með eftirfarandi hætti:
„Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því [...] að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi.“
Að mati Blindrafélagsins er ekkert sveitarfélag sem uppfyllir skilyrði þessarar greinar svo fullnægjandi sé, þó lítið vanti uppá hjá Reykjavíkurborg og Seltjarnanesi.
Í skoðanakönun sem Blindrafélagið lét Capacent Gallup gera meðal félagsmanna sinna kom í ljós að þeir mátu ferðaþjónustu sem lang mikilvægassta þjónustuúrræðið, 37,3% nefndu þferðaþjónustuna á meðan að næstu þjónustuúrræði voru að skora undir 10%.
Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins segir að ferðaþjónustuúrræði sem standa lögblindum einstaklingum til boða ráði mestu um það hvort að lögblindir einstaklingar ná að lifa sjálfstæðu lífi, verða samfélagslega virkir og eigi þess kost að stunda nám, atvinnu og tómstundir. Að komast ekki ferða sinna á sjálfstæðan máta, þegar þörf er á, leiðir til einangrunnar með tilheyrandi afleiðingum og auknum samfélagslegum kostnaði. Því miður er það svo að í mörgum sveitarfélögum er fyrirkomulag ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk með þeim hætti að um gróf brot á mannréttindum fatlaðra eisntklinga er að ræða með tilheyrandi lífsgæðaskerðingu.
Í niðurlagi bréfsins segir:
Blindrafélagið væntir þess að sveitarfélag ykkar muni takast á við það mikilvæga verkefni að tryggja fötluðu fólki lögbundin mannréttindi með fullnægjandi ferðaþjónustu í samræmi við ákvæði leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Bréfið í heild sinni ásamt upplýsingum um fjölda lögblindra íbúa eftir sveitarfélögum á pdf formi má nálgast í meðfylgjandi viðhengjum.
Bréf til sveitarstjórnarmanna. pdf skrá.
Skrá yfir fjölda lögblindra einstaklinga etir sveitarfélögum. pdf skrá.