Opið bréf til menntamálaráðherra frá formanni Blindrafélagsins, Sigþóri U. Hallfreðssyni.
Á aðalfundi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, sem haldinn var þann 12. maí síðastliðinn var samþykkt að skora á íslensk stjórnvöld að standa dyggan vörð um starfsemi Hljóðbókasafns Íslands. Jafnframt að sýna í verki vilja sinn til að stuðla að bættu aðgengi að lesefni með því að gerast aðili að Marrakesh-samningnum um aðgengi að útgefnu efni, undirrita hann og lögfesta.
Áætlað er að innan við 10% útgefins lesefnis sé aðgengilegt þeim u.þ.b. 300 milljónum manna sem eru lestrarhamlaðir á prentletur (e. persons with print disabilities). Þar á meðal eru blindir, sjónskertir og lesblindir einstaklingar. Þetta hefur bitnað sérstaklega illa á fátækari löndunum. Þar sem ástandið er verst er innan við 1% útgefinna titla gefið út á aðgengilegu formi s.s. punktaletri, stækkuðu letri eða sem hljóðbók.
Af þessum ástæðum hefur lengi verið unnið að því að ná fram alþjóðlegu samkomulagi við höfundarrétthafa um að aðilar sem ekki starfa í hagnaðarskyni hafi rétt til að gefa út útgefið efni á aðgengilegu formi og opna á aðgang til þeirra sem á þurfa að halda og enda þar með þessa bókaþurrð.
Staðan á Íslandi er nokkuð góð samanborið við mörg nágrannalönd okkar. Hljóðbókasafn Íslands gegnir þar lykilhlutverki. Á árinu 2017 var heildarfjöldi prentaðra bókatitla í Bókatíðindum 607 titlar. Hljóðbókasafnið tryggði aðgengi tæplega 50% þeirra á hljóðbókarformi. Þó svo að þetta sé hátt hlutfall miðað við löndin þar sem staðan er verst, eru þetta samt sem áður innan við helmingur útgefinna bókartitla.
Starfsemi og hlutverk Hljóðbókasafns Íslands byggir á Bókasafnslögum nr. 150/2012 og samningi á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Rithöfundasambands Íslands, auk þess að vera í fullu samræmi við ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samkvæmt þessu hefur Hljóðbókasafnið heimild til að gera allt höfundarréttarvarið efni sem gefið er út á Íslandi aðgengilegt til útláns til notenda safnsins sem skv. lögum eru eingöngu þeir sem ekki geta nýtt sér prentað letur.
Mikilvægasta þjónustan
Í nýlegri skoðanakönnun sem Blindrafélagið lét gera meðal félagsmanna sinna var þjónusta Hljóðbókasafnsins metin mikilvægasta þjónustan sem blindum og sjónskertum einstaklingum stendur til boða. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um hversu mikilvægur rétturinn til að lesa er.
Því miður hefur Hljóðbókasafn Íslands og viðskiptavinir safnsins þurft að sitja undir dylgjum og rógburði frá einstaka aðilum sem finna starfsemi safnsins allt til foráttu. Verði farið að kröfum þessa fámenna hóps mun réttur þeirra sem ekki geta nýtt sér prentletur og aðgengi þeirra að lesefni fljótt verða fyrir borð borinn.
En sem betur fer er ríkur skilningur á mannréttindahlutverki safnsins á meðal flest allra höfunda og rétthafa sem endurspeglast í samningi Rithöfundasambands Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Í september 2016 tók gildi alþjóðlegur samningur, kenndur við Marrakesh, sem felur í sér mikla réttarbót fyrir þá sem eru lestrarhamlaðir á prentletur en markmið samningsins er að að liðka fyrir aðgengi að útgefnu efni. Samningurinn krefur samningsaðila um að gera ákveðnar takmarkanir og undantekningar á höfundarréttarreglum til að leyfa endurgerð, dreifingu, tryggja aðgang að útgefnu efni á aðgengilegu formi og að leyfa skipti á þessum verkum yfir landamæri. Samningurinn takmarkast við að þetta sé ekki gert í hagnaðarskyni og ávinningurinn er eingöngu þeirra sem njóta loks aðgangs að útgefnu efni. Læsi og aðgangur að lesefni er undirstaða menntunar, atvinnuþátttöku og virkrar þátttöku í samfélaginu. Marrakesh-samningnum er ætlað að gera því fólki sem er lestrarhamlað á prentletur kleift að njóta þessa til jafns við aðra.
Evrópusambandið (The Council of the European Union) samþykkti löggjöf um Marrakesh-sáttmálann 17. júlí 2017. Með löggjöfinni um framkvæmd Marrakesh-sáttmálans sem nú er í gildi hafa aðildarríkin frest til 10. október 2018 til að innleiða Marrakesh-viðmiðin í eigin löggjöf. Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn sem komið er skrifað undir Marrakesh-samninginn.
Það er því eðlilegt að menntamálaráðherra ríkisstjórnar Íslands sé inntur svara um afstöðu og áform íslenskra stjórnvalda þegar kemur að Marrakesh-samningnum um leið og við hvetjum stjórnvöld til að standa dyggan vörð um þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa aðgang að lesefni