Nýr formaður Blindrafélagsins

Kristinn er 48 ára gamall, fæddur og uppalinn austur á Neskaupstað. Árið 1985 lauk hann námi í rafeindavirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík, árið 2000 lauk hann viðurkenndu bókaranámi frá Háskólanum í Reykjavík og nú stundar hann nám í rekkstrar og viðskiptafræði við endurmenntun Háskólans í Reykjavík, nám með vinnu.
Hann hefur mikla reynslu af ýmis konar félagsstörfum, var m.a. um tveggja ára skeið formaður Iðnnemasambands Íslands, fræðslustjóri Iðnnemasambandsins í eitt ár, Fyrsti formaður og einn af stofnendum SAGA, Suður Afríkusamtakanna gegn Apartheid og átti sæti í stjórn OBESSU, Evrópskra námsmannasamtaka, fyrstur íslendinga sem þar náði kjöri.
Þá hefur hann gengt ýmsum störfum, m.a. verið framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra sérskólanema, setið í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, átt sæti í Fræðsluráði iðngreina, skólanefnd Iðnskólans í Reykjavík og samninganefnd ASÍ. Um þriggja ára skeið var hann framkvæmdastjóri Félagsíbúða iðnnema, rak um skeið eigið fyrirtæki sem sá um innflutning, dreifingu og sölu á matvörum, var markaðsstjóri hjá Nathan og Olsen í þrjú ár og í eitt ár sölu og markaðsstjóri Ekrunnar sem sér um innflutning og dreifingu á matvöru á veitingamarkað.
Kristinn hefur verið gjaldkeri stjórnar Blindrafélagsins undanfarin tvö ár og þekkir því ágætlega starfsemi þess og hagsmunamál félagsmanna. Þá gegnir hann jafnframt starfi alþjóðafulltrúa Blindrafélagsins.
Kristinn er boðinn velkominn til starfa.
Þá eru Halldóri Sævari Guðbergssyni, fráfarandi formanni, færðar þakkir fyrir störf sín í þágu félagsins. Halldór hefur þó síður en svo hætt stjórnarstörfum því á fundinum var hann kjörinn til setu í stjórn félagsins næstu tvö árin.