Nýjung hjá Hljóðbókasafni Íslands.

Streymismiðlun hljóðbóka

Logo Hljóðbókasafns ÍslandsHljóðbókasafn Íslands opnaði í dag fyrir Daisy (Digital Accessible Information System)) streymismiðlun á öllum hljóðbókakosti safnsins í gegnum vefvarp Blindrafélagsins. Það voru Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands sem  styrktu Hljóðbókasafn Íslands um 9 milljónir króna til að koma þessari þjónustu á.

Með streymismiðlun á hljóðbókum hækkar þjónustustig safnsins gagnvart þeim sem eru með vefvarp Blindrafélagsins umtalsvert. Frá og með deginum í dag hafa notendur vefvarpsins eftirfarandi valkosti við að fá bækur í bókahilluna á vefvarpinu sínu:

  • Velja bækur úr listanum þema mánaðarins
  • Velja bækur úr nýjustu útgáfum safnsins
  • Hringja í safnið og óska eftir að tilteknar bækur verði settar á bókahilluna í vefvarpinu.
  • Fara inn á heimasíðu safnsins og inn á sitt persónulega svæði og setja bækur á bókahilluna í vefvarpinu.

Þessi þjónusta mun geta skilað hagræðingu þar sem kostnaður við dreifingu geisladiska til þessa hóps minnkar umtalsvert. Jafnframt má benda á að streymi á bókum er öruggur valkostur gegn ólöglegri dreifingu hljóðbóka.

Með þessari viðbótarþjónustu Hljóðbókasafns Íslands hefur safnið skipað sér í fremstu röð sambærilegra safna í heiminum.

Hljóðbókasafn Íslands

Hljóðbókasafn Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Lögbundið hlutverk safnsins er að opna þeim sem ekki geta nýtt sér prentað letur, aðgang að prentuðu máli, á hljóðbók eða öðru aðgengilegu formi.

Lánþegar safnsins eru sjónskertir, lesblindir og aðrir sem glíma við prentleturshömlun af einhverju tagi. Safnið framleiðir námsbækur fyrir framhaldsskólanema á hljóðbók eða rafrænu formi og leggur sérstaka áherslu á þjónustu við nemendur.  Árlega eru lesnar inn um það bil 300 hljóðbækur á safninu. Jafnframt eru erlendar námsbækur framleiddar með hjálp talgervilstækni. Lánþegar safnsins geta auk þess fengið lánað efni frá hljóðbókasöfnum á öllum Norðurlöndunum.

 

Hvað er vefvarp?

Vefvarp BlindrafélagsinsVefvarp  – talandi fjölmiðlun fyrir blinda og sjónskerta, er verkefni á vegum Blindrafélagsins. Verkefnið miðar að því að opna í gegnum nettengingu valfrjálsan aðgang að upplýsingum og efni fjölmiðla sem í dag eru að miklu leiti óaðgengilegir eldra blindu og sjónskertu fólki sem ekki er vel tölvulæst.  Vefvarps tækið, sem kemur frá hollenska fyrirtækinu  Solutions Radio, er einfaldur, talandi, gagnvirkur og auðstýranlegur nettengdur Daisy móttakari. (Digital Accessible Information System) Vefvarpið notast við nýja íslenska talgervilinn.

Hvað er hægt að hlusta á í gegnum vefvarpið.

Efni sem hægt er að hlusta á í gegnum vefvarpið er mjög fjölbreytt. Sumt er hægt að gera aðgegnilegt án mikillar fyrrihafnar á meðan að annað krefst nokkurs undirbúnings og samstarfs við eigendur efnisins. Meðal þess sem hægt er að bjóða í gegnum vefvarpið er:

  • Rauntímalestur sjónvarpsstexta og sjónlýsinga,
  • Talandi úrgáfur prentmiðla (dagblaða og tímarita) samdægurs og þau koma út,
  • Aðgangur að hljóðbókakosti Hljóðbókasafns Íslands,
  • Tilkynningar og fréttir frá þjónustu og hagsmunaaðilum,
  • Útvarpsstöðvar um allan heim,
  • Upplýsingar um sjónvarps og útvarpsdagskrárliði,
  • Efni úr hlaðvarpi (podcast).

Nú þegar er hægt að hlust á efni frá Blindrafélaginu, efni frá Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, hljóðbækur frá Hljóðbókasafni Íslands, talandi útgáfu af Morgunblaðinu, talandi útgáfu af tímariti ÖBÍ, fjöldann allan af útvarpsstöðvum, og rauntímalestur sjónvarpstexta á RUV og RUV+.

Dreifing á vefvarpinu.

Vefvarpinu er dreift í gegnum Þjónustu og þekkingarmiðstöðina fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sem hjálpartæki án endurgjalds til þeirra sem komnir eru undir tiltekin sjónskerðingarmörk.

Þeir sem ekki uppfylla skilyrði um gjaldfrjálsa úthlutun eiga þess kost að leigja vefvarpstæki og fá aðgang að þjónustunni gegn vægu gjaldi. Frekari upplýsingar  fást hjá Blindrafélaginu