Sumarbúðirnar eru árlegt verkefni sem norðurlandaþjóðirnar skiptast á að halda. Íslendingar hafa tekið þátt síðan 1989 og búðirnar hafa alltaf slegið í gegn. Að þessu sinni var verkefnið styrkt af Evrópu unga fólksins og Blindravinafélaginu.
Þema búðanna í ár var útivist og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, t.d. gönguferð, reiðtúr, sund, klifur og flúðasiglingu í Hvítá. Markmiðið var að auka áhuga blindra og sjónskertra ungmenna á útivist og íþróttum sem taka á, bæði líkamlega og andlega.
Við nýttum einnig tækifærið og skoðuðum aðgengið á Úlfljótstvatni og í sundlauginni og munum senda frá okkur ábendingar um það sem var gott og líka um það sem má betur fara. Búðirnar tókust mjög vel þrátt fyrir íslenska sumarveðrið og almennt skemmtu þátttakendur sér mjög vel og nokkrir þeirra hafa lýst áhuga á því að koma til Íslands í gönguferð með Blindrafélaginu ef tækifæri býðst.
Hægt er að sjá fleiri myndir frá Norrænu sumarbúðunum á heimasíðu Ungblind á Instagram.