Í málinu, sem var þingfest í morgun, er tekist á um það hvort að Mosfellsbær hafi uppfyllt lögboðna skyldu sína þess efnis að veita fötluðum íbúum sveitarfélagsins þá ferðaþjónustu sem þeir eiga rétt á. Um er að ræða mál sem snertir grundvallarréttindi fatlaðs fólks til að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda eins og ófatlaðir. Alexander gerir þá kröfu að Mosfellsbær veiti honum þjónustu sem er sambærileg við þá sem Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög eru að veita fötluðu fólki í hans stöðu. Þeirri beiðni hefur Mosfellsbær hins vegar hafnað og boðið Alexander ferðaþjónustu með reglubundnum hópferðum. Þá þjónustu getur Alexander hins vegar ekki nýtt sér þar sem hún er ekki í boði þegar hann þarf að komast í og úr vinnu sinni. Málið hefur hlotið flýtimeðferð hjá héraðsdómi Reykjavíkur og mun niðurstaða þess líklega hafa víðtæk áhrif fyrir stóran hóp fatlaðs fólks.
„Þetta er í raun mjög sérstakt. Ég er að fara fram á þjónustu sem er ódýrari, hagkvæmari og betri. Mosfellsbær bíður mér hins vegar þjónustu sem er dýrari, óhagkvæmari og verri.“ segir Alexander Hrafnkelsson og bætir við „það eina sem ég vil gera er að sækja vinnu mína en það gerir mér kleift að greiða skatta til ríkisins og útsvar til bæjarfélagsins. Það virðist hins vegar henta Mosfellsbæ betur að hafa mig heima.“
Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins bendir á að í almennara samhengi snúist málið að grunni til um mannréttindi fatlaðs fólks, jafnræði og félagslegt réttlæti. „Annað hvort eru þessi réttindi, sem eiga að vera tryggð í lögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, til staðar eða ekki. Fyrri kosturinn leiðir til þess að fatlað fólk hefur aukin tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu með aukinni hagsæld fyrir heildina en sá síðari til félagslegrar einangrunar og miska fyrir fatlað fólk“ segir Kristinn.
Páll Rúnar M. Kristjánsson er lögmaður Alexanders. „Lögfræðilega spurningin í málinu er sú hvort að túlka skuli lög með hliðsjón af markmiðum þeirra og þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist í alþjóðalegum mannréttindasáttmálum eða hvort að lögskýring eigi að fara fram í ákveðnu tómarúmi. Þá er einnig ákveðinn ágreiningur um það hvernig staðið var að umræddri ákvörðun Mosfellsbæjar“ segir Páll Rúnar. Hann bendir einnig á að þær skyldur sem lagðar eru á aðila t.d. í samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks séu mjög skýrar. Á það sérstaklega við hvað ferilmál varðar. Í samningnum kemur fram að fatlað fólk skuli geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi. „Þetta sjónarmið ætti með réttu að hafa mikla þýðingu í málinu enda er það lögbundin skylda við framkvæmd laga um málefni fatlaðs fólks að taka mið af samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þau mannréttinda sjónarmið sem þar koma fram eru hins vegar hvergi sjáanleg í málsmeðferð Mosfellsbæjar.“ segir Páll Rúnar.
Frekari upplýsingar veita:
Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.
símanúmer: 588 8933 og 661 5455
Kristinn Halldór Einarsson
formaður Blindrafélagsins
símanúmer 525 0020 og 661 7809