Þann 11. apríl styrkti Landsbankinn 75 góð málefni um eina milljón hvert.
Blindrafélagið var eitt þeirra félaga sem hlaut styrk af þessu tagi og tók Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri við styrknum fyrir hönd félagsins.
Hér fyrir neðan er frétt sem birtist inni á vefsvæðinu
www.gottmalefni.is
Þar inni er líka að finna ýmsar upplýsingar um verkefnið, m.a. hvernig hægt er að velja sér málefni til að styrkja um lengri eða skemmri tíma.
Þar má einnig finna viðtöl við 12 einstaklinga sem segja sögu sína, en þeir glíma allir við erfiðleika í lífi sínu, hver á sinn hátt.
Þar má t.d. finna viðtal við Friðgeir Jóhannesson varaformann Blindrafélagsins.
Kíkið endilega á
www.gottmalefni .is
Fréttir og tilkynningar - 11. apríl 2007
Landsbankinn úthlutar 75 milljónum króna til 75 góðra málefna
Menningarsjóður Landsbankans hefur ákveðið að styrkja 75 góð málefni um eina milljón króna hvert. Málefnin eru öll í þjónustunni Leggðu góðu málefni lið
í Einkabanka og Fyrirtækjabanka Landsbankans sem gerir öllum viðskiptavinum Landsbankans kleift að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Um er að ræða
stærstu einstöku úthlutun Menningarsjóðs Landsbankans til þessa.
Þjónustan Leggðu góðu málefni lið er sú fyrsta og eina sinnar tegundar hér á landi en markmiðið er að bjóða almenningi auðvelda leið til að gerast áskrifendur
að stuðningi við gott málefni. Það sem gerir hana sérstaka er að á einum stað fæst yfirsýn yfir 75 góðgerðarfélög og hægt er að velja um mánaðarlegan stuðning
eða staka greiðslu.
Úthlutun Menningarsjóðs Landsbankans til málefnanna 75 fer fram sama dag og Landsbankinn gefur út veglegt blað um Leggðu góðu málefni lið. Í blaðinu, sem
dreift er á hvert heimili í landinu, er sögð saga tólf einstaklinga sem glíma við erfiðleika í lífi sínu, hver á sinn hátt. Landsbankinn tileinkar blaðið
fólki sem helgar líf sitt því að styðja við bakið á þeim sem á þurfa að halda.
Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans og formaður stjórnar Menningarsjóðs Landsbankans, segir markmiðið með úthlutuninni og útgáfu blaðsins að vekja athygli á því hversu auðvelt það getur verið að leggja góðu málefni lið.
"Landsbankinn vill ganga á undan með góðu fordæmi og styrkir því öll málefnin í þjónustunni, 75 að tölu. Við gerum ekki upp á milli þeirra en fólk sem notar
þjónustuna getur hins vegar valið sér áskrift að því málefni sem því er kærast. Leggðu góðu málefni lið er einstakt framtak og þekki ég ekki dæmi um sambærilega
þjónustu í alþjóðlegum bankaheimi," segir Björgólfur sem afhenti hverjum fulltrúa hinna 75 góðu málefna ávísun að upphæð ein milljón króna við hátíðlega
athöfn í Iðnó kl. 11 í dag.
Landsbankinn opnaði þjónustuna Leggðu góðu málefni lið í Einkabankanum 1. júlí á síðasta ári í tilefni af 120 ára afmæli bankans. Síðan þá hafa hundruð
Íslendinga gerst áskrifendur að góðu málefni. Það er von bankans að sérstakt framlag sjóðsins nú verði landsmönnum hvatning til að finna svigrúm fyrir
góð málefni í heimilisbókhaldinu. Það verði ekki svo frábrugðið því að greiða af húsinu eða bílnum og fyrir rafmagn og hita.
Nánar um Leggðu góðu málefni lið
Leggðu góðu málefni lið
Leggðu góðu málefni lið er þýðingarmikil þjónusta í Einkabanka og Fyrirtækjabanka Landsbankans. Þjónustan gerir öllum viðskiptavinum Landsbankans kleift að leggja sitt af mörkum til samfélagsins á einfaldan og þægilegan hátt.
Hægt er að velja úr 75 góðgerðarfélögum og málefnum í Leggðu góðu málefni lið. Þú velur einfaldlega styrkupphæðina og yfir hversu langt tímabil þú vilt
styrkja málefnið. Hver króna skilar sér til góðgerðarfélaganna og notendur bera engan kostnað við stuðning sinn. Með einfaldri aðgerð er svo hægt að hætta
stuðningi ef svo ber undir.
Fyrst um sinn verða eingöngu góðgerðar- og mannúðarmálefni í þjónustu Landsbankans á Einkabankanum og Fyrirtækjabankanum. Landsbankinn áskilur sér rétt til að velja hvaða málefni fá aðgang að þjónustunni. Val góðgerðarfélaga í þjónustuna er ekki bundið viðskiptum við Landsbankann.
Á vefsvæðinu
www.gottmalefni.is
eru allar upplýsingar um þjónustuna Leggðu góðu málefni lið. Þar eru einnig viðtöl í fullri lengd við þá tólf einstaklinga sem segja sögu sína í sérblaði Landsbankans um Leggðu góðu málefni lið.