Mál gegn Kópavogsbæ vegna ferðaþjónustu við lögblinda konu þingfest

Málið snýst um að lögblind kona sem býr í Kópavogi hefur höfðað mál gegn Kópavogsbæ og gert þá kröfu að viðurkenndur verði réttur hennar til ferðaþjónustu fyrir fatlaða. Telur konan að hún eigi rétt á ferðaþjónustu sem er sambærileg þeirri ferðaþjónustu sem er veitt blindum íbúum nálægra sveitarfélaga þ. á m. í Reykjavík. Héraðsdómur Reykjaness hefur samþykkt að málið hljóti flýtimeðferð og var það þingfest í dag.

Í málinu sækir stefnandi þann rétt sem fötluðu fólki er tryggður í lögum um málefnis fatlaðs fólks sem og þann rétt sem fötluðu fólki er tryggður í samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar kemur skýrt fram að tryggja skuli fötluðu fólki ferðaþjónustu sem gerir því kleift að stunda atvinnu sína, nám og tómstundir. Þá skuli slíkar ráðstafanir gera fötluðu fólki kleift að komast allra sinna ferða með þeim hætti, og þegar, þeim hentar. Þegar slík þjónusta er veitt verður því að horfa til þarfa og getu hvers og eins svo að mögulegt verði að ná þessum markmiðum viðkomandi einstaklinga. Það er því ekki fullnægjandi að veita einsleita almenna þjónustu óháð því hvort hún uppfylli þau lögbundnu markmið og réttindi sem stefnt er að. Stefnandi í málinu telur ljóst að sú þjónustu sem Kópavogsbær bauð henni uppfyllti ekki þessi skilyrði hvað hana varðar. Hefur Kópavogsbær því sniðgengið framangreindar skyldur sínar að mati stefnanda.

Frekari upplýsingar veita:

Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins í síma 661 7809 eða
Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl, lögmaður Blindrafélagsins í síma 661 5455.