Ályktun aðalstjórna ÖBÍ
Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 23. nóvember 2011, mótmælir harðlega þeim alvarlegu skerðingum á kjörum öryrkja sem fyrirhugaðar eru af hálfu Ríkisstjórnar Íslands og birtast m.a. í frumvarpsdrögum Velferðarráðuneytisins. Öryrkjabandalagið krefst þess að ríkisstjórnin hverfi þegar í stað frá áformum sínum um enn frekari árásir á lífskjör öryrkja fjórða árið í röð.
Örykjabandalagið hvetur öryrkja og aðra landsmenn til að fylgjast grannt með framvindu mála næstu daga og vikur.
Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega árás á réttindi launafólks og svikum um hækkun bóta almannatrygginga
Í maí átti ríkisstjórn Samfylkingar og VG aðkomu að gerð kjarasamninga ASÍ og SA sem síðar urðu forskrift að flest öllum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 segir orðrétt:
Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.
Það eru sjö mánuðir síðan ríkisstjórnin gaf þetta loforð. Samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningum eiga lægstu laun og þar með bætur að hækka um 6,5% 1. febrúar 2012. Í bandormi ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir Alþingi kemur fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið einhliða að bætur hækki aðeins um helming af því sem um var samið í kjarasamningunum. Það þýðir að atvinnuleysisbætur hækka aðeins um 3,5% eða 5.500 kr en ekki 11.000 kr. Ríkisstjórnin sem kennir sig við velferð ætlar þannig ekki aðeins að svíkja eigin loforð heldur einnig snupra þá sem lökust hafa kjörin í okkar þjóðfélagi. Og þar með er ekki öll sagan sögð.
Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og mótmæli verkalýðshreyfingarinnar ætlar ríkisstjórnin að halda til streitu svokölluðu þriggja mánaða sveltitímabili langtímaatvinnulausra. Það þýðir að þeir sem hafa verið atvinnulausir í þrjú og hálft ár falla af bótum í þrjá mánuði áður en réttur þeirra endurnýjast og þá aðeins í 3 mánuði. Hvað fólk á að gera í þessa þrjá mánuði til að lifa af getur ríkisstjórnin ein svarað. Þetta er ómanneskjuleg framkoma sem minnir helst á hreppaflutninga fyrr á öldum. Ríkið firrar sig ábyrgð og vísar atvinnuleitendum á framfærslu annarra.
Enn ein atlaga ríkisstjórnarinnar að íslensku launafólki er fyrirhuguð skattlagning á lífeyrissjóði. Með slíkri aðgerð er ríkisstjórnin grímulaust að skerða lífeyrisréttindi launafólks á almennum markaði. Það er verið að lækka framfærslu þúsunda Íslendinga. En að sjálfsögðu bara þeirra sem hafa starfað á almennum markaði. Opinberir starfsmenn halda sínu að fullu, sem fyrr.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar alfarið síendurteknum árásum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á íslenskt launafólk. Ef ríkisstjórnin fer fram með þær hugmyndir sem hér hafa verið reifaðar mun henni verða svarað af fullri hörku.