Alvarleg staða verndaðra vinnustaða

Bréfið er svohljóðandi:

Háttvirti alþingismaður

Með þessu tölvupósti vil ég vekja athyglin þína á alvarlegri stöðu sem er að skapast hjá vernduðum vinnustöðum, en Blindravinnustofan er einn þeirra.

Þann 24 október s.l sendu Blindravinnustofan, Múlalundur og Vinnustaðir ÖBÍ fjárlaganefnd Alþingis bréf þar sem vakin var athygli á alvarlegri stöðu þessara vinnustaða og alvarlegum afleiðingum þess ef tillögur til fjárveitinga til starfsemi þeirra fyrri árið 2012 verða samþykktar. Í bréfinu segir m.a.:

„Samkvæmt lögum bera opinberir aðilar ábyrgð á að tryggja fötluðum atvinnu eða aðgengi að atvinnutengdum úrræðum. Í næstum tvo áratugi hafa Blindravinnustofan, Múlalundur og Vinnustaðir ÖBÍ borið ábyrgð á framkvæmd hluta þeirra úrræða i gegnum þjónustusamninga við félagsmálaráðuneytið og siðar Vinnumálastofnun. Greiðslum samkvæmt samningunum var ætlað að standa undir kostnaði við þjálfun og skerðingu vinnugetu starfsmanna, og var framlag vegna þjónustunnar tengt launakostnaði.

Vegna þeirra áherslu sem lögð hefur verið á að hækka lægstu laun í undanförnum kjarasamningum er nú orðinn 35% munur á greiðslunum og þeim kostnaði sem greiðslunum er ætlað að standa undir samkvæmt þeim samningum sem seinast voru gerðir. Þessi mikli munur er farinn að hafa alvarlegar afleiðingar á rekstrarafkomu vinnustaðanna. Núverandi fjárlagafrumvarp gerir ekki ráð fyrir því að þessum kostnaðarauka verði mætt á nokkurn hátt. Tillaga um framlag til Blindravinnustofunnar á árinu 2012 er 22,3 milljónir, en þyrfti að vera 30 milljónir til að hið opinber væri að standa undir sínum umsamda kostnaði við rekstur Blindravinnustofunnar.

 

Sú spurning er áleitin hvort að Alþingi Íslendinga muni samþykkja það að samtök eins og Blindrafélagið, SÍBS og Öryrkjabandalag Íslands, skuli axli skyldur hins opinbera og greiða úr sínum sjóðum fyrir atvinnuúrræði fatlaðs fólks, sem er lögbundin skylda hins opinbera að sinna?

Enn eru einhverjar leiðir hugsanlegar til að draga úr fjárveitingarþörf hins opinbera til verndaðra vinnustaða og atvinnuúrræða fatlaðra?

Já, þær leiðir eru nefnilega til.

Í 18. gr. laga um opinber innkaup er heimild til að afmarka opinber innkaup/útboð við ákveðna hópa, t.d. verndaða vinnustaði. Lögmaður Blindrafélagsins ritaði fjármálaráðuneytinu bréf og spurðist fyrir um hvort þessi heimild hefði einhvern tíman verið nýtt. Svarið sem fékkst var að heimildin hafi aldrei verið nýtt, eftir því sem  best væri vitað, og ekki fyrirhugað að gera það.

Tilgangur lagaheimildar eins og hér um ræðir  er að styrkja ákveðna framleiðslu/starfsemi fatlaðra sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, skapa tækifæri til tekjuöflunar og auka sjálfstæði og lífsgæði. Framkvæmdavaldið kýs hinsvegar að nýta ekki þessa heimild – það prófar það ekki einu sinni til málamynda að framkvæma slíkt útboð. Það er einnig algerlega horft framhjá því að ríkið hefði tvöfaldan ábata af slíku enda er það eðlilega hagur ríkisins að atvinnustig fatlaðra sé sem hæst. Þessu til viðbótar skal á það bent að undantekningarreglur sem þessar í lögum um opinber innkaup eru sárafáar. Grundvallast það á því sjónarmiði að réttara sé að láta markaðinn búa til ábata í formi sparnaðar sem svo má ráðstafa með einum eða öðrum hætti. Þetta á hins vegar ekki við í þessu tilfelli þar sem að Evrópusambandið (og í raun fleiri) sjá þann margfalda ábata sem samfélagið hefur, t.d. með aukinni tekjuöflun, hærra atvinnustigi, skattgreiðslum, aukin lífsgæði o.s.frv. Þessi heimild er því grundvölluð á mjög hörðum efnahagslegum rökum. Að því skoðuðu er vandséð að þessi afstaða opinbera aðila eigi rétt á sér. Á sama tíma eru svo fjárveitingar til verndaðra vinnustaða svo lág að ekki verður annað séð en að hið opinbera sé að víkja sér undan lögbundinni ábyrgð í atvinnumálum fatlaðra.

Meðfylgjandi eru:

Béf Blindravinnustofunnar, Múlalundar og Vinnustaða ÖBÍ til fjárlaganefndar

Svar fjármálaráðuneytisins til lögmanns Blindrafélagsins um nýtingu heimildarákvæðis í 18 grein laga um opinber innkaup.  


Virðingarfyllst,

Kristinn Halldór Einarsson
Formaður Blindrafélagsins