Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur gefið út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Reglurnar taka til þjónustu stuðningsfjölskyldna, ferðaþjónustu, styrkja til náms og til verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks.
Leiðbeinandi reglur um framantalda þætti eru settar á grundvelli ákvæða í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér reglur um þessa þjónustu en ber að gera það með hliðsjón af leiðbeinandi reglum ráðherra auk þess sem taka skal mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Markmiðið með reglunum er að stuðla að samræmdri þjónustu milli sveitarfélaga og þjónustusvæða fatlaðs fólks.
Slóðin inn á fréttina á vef Velferðarráðuneytisins
Í leiðbeinandi reglum um ferðaþjónustu við fatlað fólk er að öllu leiti komið til móts við þær áherslur sem Blindrafélagið hefur haldið á lofti varðandi ferðaþjónustu við fatlað fólk sem ekki getur nýtt sér almenningssamgöngur. Enn eins og kunnugt er þá hefur félagið átt í deilum við Kópavog um túlkun á því hvað kröfur ferðaþjónustan á að uppfylla. Í reglunum er skýrt kveðið á um að þjónustan skuli taka mið af 20 grein Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Enn í greininni er kveðið á um að gera skuli árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem og þegar því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi.