Blindrafélagið vinnur áfagangasigur í baráttunni fyrir ferðaþjónustu við blinda Kópavogsbúa

Félagsþjónustan í Kópavogi hefur fallist á þá kröfu Blindrafélagsins, fyrir hönd Odds Stefánssonar, að veita honum ferðaþjónustu sem tekur mið af þörfum hans sem fatlaðs einstaklings sem ekki getur nýtt sér almenningssamgöngur. Framvegis mun Oddur geta nýtt sér ferðaþjónustu með leigubílum með kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins, þannig er komið til móts við ákvæði 35. greinar laga um málefni fatlaðs fólks og 20. greinar Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Hér er um mikilvægan áfangasigur að ræða í margra ára baráttu fyrir því að sú ferðaþjónustu sem Kópavogsbæ ber lagaleg skylda til að sjá lögblindum íbúum sínum fyrir, skuli taka mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins og gera þeim kleyft að sækja vinnu, stunda nám og sinna tómstundum. Málflutningur Kópsvogs hefur fram til þess byggst á því að veita verði öllum hópum fatlaðra sömu þjónustuna, burt séð frá persónulegum þörfum hvers einstaklings.

Blindrafélagið á þó ennþá í deilum við Kópavogsbæ um ferðaþjónustuúrræði lögblindra Kópavogsbúa. Þannig verður í dag, 25 janúar, tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness stefna á hendur Kópavogsbæ. Í stefnunni er gerð krafa um að Guðrún Helga Skúladóttir, lögblind kona búsett í Kópavogi, fái ferðaþjónustu sem taki mið af hennar persónulegu þörfum og sem geri henni kleyft að sækja vinnu, stunda nám og sinna tómstundum.

35. grein laga um málefni fatlaðs fólks:

Sveitarfélög skulu gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
  Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.–3. tölul. 2. mgr. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega.
  Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið þá taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.]1)

20. grein um ferlimál einstaklinga úr Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,
b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðra að hreyfibúnaði, tækjum, hjálpargögnum og beinni aðstoð og þjónustu milliliða í háum gæðaflokki, meðal annars með því að hafa þau á boðstólum á viðráðanlegu verði,
c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlaða og sérhæft starfslið sem vinnur með fötluðum, d) að hvetja fyrirtæki, sem framleiða hreyfibúnað, tæki og hjálpargögn, til þess að taka mið af öllum þáttum ferlimála fatlaðra.

Frekari upplýsingar veitir:
Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins í síma 525 0020 eða 661 7809.