Landssöfnun Lions 17.-19. apríl 2015

Mynd af leiðsöguhundinum BonoHver hundur kostar 8-10 milljónir króna þegar allt er talið.

Þörf er á 14-16 hundum á Íslandi en aðeins 7 verða í þjónustu á komandi sumri. 

Lionsfólk gengur í hús og verður á fjölförnum stöðum. Valkröfur verða aðgengilegar í heimabanka og innhringinúmer í símasöfnun.

Dagana 17. – 19. apríl fer landssöfnun Lions, Rauða fjöðrin, fram um allt land. Markmiðið er að safna í sjóð til að fjármagna kaup á leiðsöguhundum fyrir blinda í samvinnu við Blindrafélagið og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Hver hundur getur kostað allt að 10 milljónir króna og unnið í allt að 10 ár. Hundarnir eru sérvaldir með hliðsjón af eiginleikum þeirra og eru tilbúnir til starfa við 2 1/2 árs aldur eftir gríðarlega þjálfun. Vinnusamband manns og hunds byggir síðan ekki síst á vináttu þeirra og kærleika. Leiðsöguhundar bæta lífsgæði blindra og sjónskertra verulega og stuðla að aukinni virkni þeirra í samfélaginu.      Lionsfélagar verða á ferðinni þessa helgi með rauðu fjöðrina til sölu. Þeir munu ganga í heimahús, verða í verslunarmiðstöðvum og á fleiri fjölförnum stöðum. Auk þess verða valgreiðslur sendar í heimabanka og hringja má í söfnunarnúmer.   Verndari söfnunarinnar er hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.

Söfnunarnúmer

Mynd af leiðsöguhundinum BonoAuk þess að kaupa rauðu fjöðrina má leggja verkefninu lið með því að greiða valgreiðslu í heimabanka eða millifæra upphæð að eigin vali inn á reikning Lions: 0111-26-100230, kt. 640572-0869.

Einnig er hægt að hringja í söfnunarsímanúmer:

Styrkur að fjárhæð 1.000 kr. skuldfærist af símreikningi þegar hringt er í símanúmerið 
904 1010.
Styrkur að fjárhæð 3.000 kr. skuldfærist af símreikningi þegar hringt er í símanúmerið 
904 1030.
Styrkur að fjárhæð 5.000 kr.  skuldfærist af símreikningi þegar hringt er í símanúmerið 
904 1050.

Frekari upplýsingar veita: Bergvin Oddsson, formaður Blindrafélagsins, sími 895 8582, beggi@blind.is.

Huld Magnúsdóttir, forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, sími 860 9494, huld@midstod.is.

Fjölumdæmisstjóri Lions: Tryggvi Kristjánsson, sími 849 5563, lorenzo@simnet.is.

Umdæmisstjóri Lions svæði 109 A: Einar Þórðarson, sími  899 6469, einarthordar@gmail.com.

Umdæmisstjóri Lions svæði 109 B: Stefán Árnason, sími  8646444, stefan@esveit.is.

Hvað er rauða fjöðrin?

Mynd um auglýsingu fyrir landssöfnun Lions fyrir leiðsöguhundinum.Rauða fjöðrin er barmmerki sem Lionshreyfingin hefur selt á nokkurra ára fresti í rúma fjóra áratugi. Ágóðanum af sölunni hefur verið varið til ýmissa veglegra verkefna en fyrsta söfnunin fór fram árið 1972 og var ágóða sölunnar varið til kaupa á tækjum fyrir augndeild Landakotsspítala. Fjórum árum síðar nutu þroskaskertir ágóðans er þeim voru færð tannlækningatæki. Meðal verkefna sem safnað hefur verið fyrir hér á landi í gegnum árin eru tækjabúnaður á Landspítalann, sambýli fyrir fatlaða á Reykjalundi, gigtar- og öldrunarrannsóknir. Fyrir fjórum árum var safnað fyrir hönnun á íslenskum talgervli fyrir blinda og sjónskerta sem tekinn var í gagnið í kjölfarið. Talgervillinn breytti sannarlega lífsgæðum blindra og sjónskertra til muna.

Nú, árið 2015, er safnað fyrir leiðsöguhundum fyrir blinda en auk þess sem kaupa má fjöðrina sjálfa er hægt að leggja verkefninu lið með því að leggja inn á reikning þess, greiða valgreiðslu í heimabanka eða hringja í söfnunarnúmer.

Um leiðsöguhunda

Frá árinu 2008 hefur sex leiðsöguhundum verið úthlutað hér á landi  en leiðsöguhundar eru afar mikilvæg hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga, auka sjálfstæði þeirra og lífsgæði. Þörfin fyrir fleiri leiðsöguhunda er mikil, áætlað er að a.m.k. fjórtán til sextán hundar þurfi að vera í notkun á hverjum tíma til að uppfylla þörfina hér á landi.  Nú eru í notkun fjórir leiðsöguhundar frá Noregi, tveir hundar hafa verið þjálfaðir á Íslandi hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð og tveir nýir hundar voru að koma til landsins frá Svíþjóð og verða afhentir í maí.

Leiðsöguhundar aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt, m.a. með því að forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð, hindra að notandi hrasi við kanta eða tröppur, stöðva við gatnamót og fara yfir umferðargötur á öruggan hátt með því að forðast að ganga í veg fyrir bíla og önnur farartæki. Þá fylgja þeir fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur. 

Leiðsöguhundar eru yfirleitt tilbúnir að hefja störf um 2 1/2 árs aldur eftir stífa þjálfun en þeir eru sérvaldir með tilliti til eiginleika, skapgerðar og hæfileika til að læra. Meðalstarfsaldur þeirra er á milli 8 til 10 ár.

Leiðsöguhundar kosta að jafnaði 8-10 milljónir króna tilbúnir til notkunar. Flestir leiðsöguhundar á Íslandi eru svartir Labrador og einn Golden Retriever. Erlendis er yfirleitt skiptingin á milli tegunda þ.e. Labrador og Golden Retriever nokkuð jöfn en einnig eru notaðar Kóngapoodle og Schaefer hundar.

Mega leiðsöguhundar fara hvert sem er?

Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti (nr. 941/2002) má starfandi leiðsöguhundur fara með notanda sínum á alla þá staði sem opnir eru almenningi. Má þar nefna allar verslanir, veitingastaði, gististaði, sundstaði, íþróttahús, leikhús, strætisvagna og flugvélar. Notandi á ekki að þurfa að borga undir hundinn þegar ferðast er með hann í samgöngutækjum (t.d. í flugvél) og skal hundurinn ávallt fylgja notanda, og má ekki  vera settur í farangursgeymslu. Árið 2011 var lögum um fjöleignarhús breytt á Alþingi á þann hátt að heimilt er að hafa leiðsöguhund í fjölbýli án þess að samþykki þurfi frá öðrum íbúum hússins.

Má klappa leiðsöguhundum?

Það má ekki klappa leiðsöguhundi þegar hann er að vinna. Þegar leiðsöguhundur er með beisli bendir það undantekningarlaust til þess að hann sé að vinna. Þegar hann er aðeins í ól og ekki með beisli má sennilega klappa honum, en þá er engu að síður góður siður að fá leyfi til þess hjá notandanum. Leiðsöguhundar eru mjög mannelskir og vilja gjarnan láta klappa sér. Hinsvegar eru þeir þjálfaðir til að viðhalda mikilli stillingu og sýna lágmarks viðbrögð við fólki og öðrum dýrum þegar þeir eru við störf.

Eru leiðsöguhundar alltaf í vinnunni?

Leiðsöguhundar eru mjög agaðir og hlýðnir þegar þeir eru með beislið og í vinnunni. Þess á milli eru þeir eins og eðlilegir heimilishundar. Þeir hafa mikið gaman af því að hlaupa frjálsir um, þefa eða leika sér við aðra hunda og við eigendur sína. Vissulega eru leiðsöguhundar mjög húsbóndahollir. Þar sem notandi og hundur verja miklum tíma saman myndast yfirleitt sterk vinatengsl. Notendum þykir yfirleitt ákaflega vænt um hund sinn og margir segja hann vera sinn besta og tryggasta vin. Í þjálfun hundsins og stuðningi hundaþjálfara við notendur er lögð rík áhersla á vinasambandið við hundinn. Mikilvægt er að notandi sé fær um að sýna mikla ákveðni og fastheldni við vissar aðstæður en mikla hlýju og kærleik við aðrar. Án vinasambandsins er vinnusambandið ómögulegt til langs tíma.

Um Lions

Ísland er sjálfstætt fjölumdæmi innan Alþjóðasambands Lionsklúbba. Lionsfélagar á öllu landinu eru um 2.300 talsins.  Í Lions vinna saman konur og karlar, ungir og aldnir. Lionsfélagar láta gott af sér leiða á sviði mannúðar- og menningarmála.  Klúbbar styðja hver sitt byggðarlag og taka þátt í landsverkefnum og alþjóðlegum verkefnum. Lionsfélagar leggja lið þeim sem minna mega sín, m.a. sjúkum, sjónskertum og fötluðum. Einnig eru verkefni tengd börnum, öldruðum, menn-ingarmálum og umhverfi. Íslenskir Lionsklúbbar taka þátt í alþjóðastarfi Lions. Frekari upplýsingar um Lions á Íslandi má finna á vef hreyfingarinnar, www.lions.is.

Alþjóðahreyfing Lions er fjölmennasta þjónustuhreyfing heims með fleiri en 1,3 milljónir félaga í um 45.000 klúbbum í yfir 200 löndum víðs vegar um veröldina. Hreyfingin var stofnuð árið 1917 og allar götur síðan hafa Lionsfélagar unnið sérstaklega að því að bæta hag blindra og sjónskertra en einnig og ekki síður á margvíslegum sviðum samfélagsþjónustu. Frekari upplýingar má finna á vef alþjóðahreyfingarinnar, www.lionsclubs.org