Mánudaginn 15. desember kl 22:20 verður í ríkissjónvarpinu sýnt viðtal við Dr. Gerald J. Chader, sem er einn af fremstu vísindamönnum í heimi þegar kemur að þekkingu á þeim fjölmörgu rannsóknum og tilraunum til að finna meðferðir og lækningar við nú ólæknandi arfgengum hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu. Þetta eru sjúkdómar eins og AMD (aldurstengd hrörnun í augnbotni), RP, Usher, LCA og fleiri. Reikna má með að í kringum 80% þeirra sem er blindir eða alvarlega sjónskertir á Íslandi séu það af völdum einhvers þessara sjúkdóma.
Dr. Gerald J. Chader er sérfræðingur í augnsjúkdómum við Háskólann í suður Californíu og kom hingað til lands í tilefni alþjóðlegs sjónverndardags 10. október. Hann var aðalfyrirlesari á ráðstefnu sem Blindrafélagið hafði forgöngu um og bar yfirskriftina "Barist gegn og lifað með blindu og sjónskerðingu." Þar greindi hann frá nýjum meðferðum, rannsóknum og tilraunum sem eru í gangi víða um heim og möguleikum þeirra sem eru að missa sjónina af völdum arfgengra hrörnuarsjúkdóma í sjónhimnu, í fyrirlestri sem bar yfirskriftina úr myrkviðum vísindanna til upplýstra klínískra rannsókna.