Heiðursveiting á aðalfundi

_MG_1635

Í hádegishléi á aðalfundi Blindrafélagsins síðastliðinn laugardag fór fram heiðursveiting. Þá var einn félagsmaður Blindrafélagsins, Kristján Tryggvason, heiðraður með gulllampa félagsins.

Kristján býr norður á Akureyri og gat því miður ekki komið á fundinn vegna veikinda.

Hann var því í beinu símasambandi við fundinn og veitti Pálmi Stefánsson, sem einnig býr á Akureyri, lampanum viðtökur fyrir hönd Kristjáns. Pálmi flaug svo norður síðar um daginn og kom lampanum til skila.

Eftirfarandi texti um Kristján var lesinn á fundinum:

"Kristján Tryggvason er fæddur á Svalbarðsströnd í Eyjafirði þann 24. apríl 1920.

Hann missti sjónina vegna slyss þegar hann var aðeins 14 ára gamall og fór það sama ár í nám í körfugerð og burstagerð hjá Blindravinafélagi Íslands.

Kristján gekk til liðs við Blindrafélagið fljótlega eftir stofnun þess og hefur verið virkur í starfi þess síðan. Kristján hefur alla sína tíð búið norðan heiða, á Svalbarðsströnd til ársins 1944 og eftir það á Akureyri.

Hann reisti sitt eigið verkstæði á Akureyri upp úr 1940 og hefur rekið það síðan.

Kristján var einn af stofnendum norðurlandsdeildar Blindrafélagsins og var í forsvari fyrir deildina um tíma.

Kristján hefur með ævistarfi sínu verið mörgum blindum og sjónskertum fyrirmynd og óhætt er að segja að á sínum tíma hafi hann verið brautryðjandi hvað varðar sjálfstæðan atvinnurekstur blindra og sjónskertra.

Framleiðsla hans, m.a. barnavöggur, rúm og burstar, er vel þekkt um allt land og hann á sinn stóra þátt í því að landsmenn tengja vöggur og bursta ætíð blindum og sjónskertum.

 

Stjórn og varastjórn Blindrafélagsins telur Kristján afar vel af þessum heiðri kominn og vill með þessu votta honum þakklæti Blindrafélagsins fyrir störf hans og framlag í þágu blindra og sjónskertra á Íslandi."

Að lokinni heiðursveitingunni flutti Kristján stutt ávarp þar sem hann þakkaði heiðurinn og rifjaði í stuttu máli upp þá staðreynd að hann er einn eftirlifandi af fyrstu félagsmönnum Blindrafélagsins. Kristján var ekki meðal stofnfélaga þess, en gekk til liðs við félagið nokkrum mánuðum eftir að það var stofnað.

Kristján var afar hrærður og þakklátur fyrir heiðurinn og heyra mátti saumnál detta undir ávarpi hans, svo mikil var kyrrðin.

Þetta var hátíðleg stund og allir sammála um að Kristján væri afar vel af heiðrinum kominn.