Heiðursóður til frú Vigdísar Finnbogadóttur

Ljósmynd frá norrænni ráðstefnu blindrafélaganna á Hótel Loftleiðum árið 1982: Frú Vigdís Finnbogadó…
Ljósmynd frá norrænni ráðstefnu blindrafélaganna á Hótel Loftleiðum árið 1982: Frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, tekur í hönd Halldórs S. Rafnars, fyrrverandi formanns Blindrafélagsins. Myndin er úr safni Blindrafélagsins.

Á sjálfu kvennaári fagnar frú Vigdís Finnbogadóttir stórafmæli – tímamótum sem vert er að staldra aðeins við og fagna með virðingu og þakklæti. Líf og störf frú Vigdísar eru samofin sögu jafnréttisbaráttu, menningar og menntunar, og er hún ekki aðeins ein sú helsta fyrirmynd þjóðarinnar, heldur einnig brautryðjandi á alþjóðavettvangi. Sem fyrsti þjóðkjörni kvenforseti í heimi ruddi hún veginn fyrir konur í leiðtogahlutverkum og stjórnmálum, hér á Íslandi sem og víða um heim, og á óumdeilanlegan sess í hjörtum margra landsmanna.

Frú Vigdís hefur alla tíð verið þekkt fyrir skýra sýn og sterk gildi sem endurspeglast í ómetanlegu framlagi hennar til málefna sem snerta menntun, tungumál, jafnrétti kynjanna, umhverfismál og menningu. Hún hefur verið ötul talskona margra mikilvægra málaflokka og sýnt í verki hvernig samvinna og samhugur getur skilað varanlegum áhrifum til góðs.

Því getum við sagt stolt frá sérlega góðum minningum um hlýja og einlæga þátttöku frú Vigdísar í starfi félagsins í gegnum tíðina. Þann 19. ágúst 2014 var henni veitt æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins, Gulllampann, fyrir sitt ómetanlega framlag til réttindabaráttu og lífsgæða blindra og sjónskertra. Sérstaklega var það vegna hlutverks hennar sem verndari íslenska talgervlaverkefnisins, sem hafði það að markmiði að þróa íslenskar talgervilsraddir fyrir tölvutækjalausnir. Með stuðningi hennar og samfylgd urðu raddirnar Dóra og Karl að veruleika – íslenskar talgervilsraddir sem standast samanburð við þær bestu sem þekkjast á alþjóðavísu. Þessar raddir hafa verið í virkri notkun frá árinu 2012 og skipta svo sannarlega sköpum í daglegu lífi margra blindra og sjónskertra notenda hérlendis.

Nú viljum við, starfsmenn Blindrafélagsins, á þessu merku tímamótum votta frú Vigdísi Finnbogadóttur dýpstu þakkir fyrir einlægan velvilja, ómetanlega samfylgd og þann innblástur sem hún hefur veitt samfélaginu öllu – ekki síst þeim hópi sem félagið okkar stendur vörð um. Það er ómetanlegt fyrir Blindrafélagið að njóta slíks trausts, stuðnings og innblásturs frá frú Vigdísi í gegnum árin.

 

Blindrafélagið óskar frú Vigdísi innilega til hamingju með afmælið – með kærleik, virðingu og þakklæti fyrir allt sem hún hefur lagt af mörkum í þágu félagsins og samfélagsins alls.