Halldór Sævar tekur við sem formaður Blindrafélagsins

Halldor Sævar GuðbergssonMiðvikudaginn 30. september var haldinn yfir 100 manna félagsfundur í Blindrafélaginu þar sem fjallað var um vantraustyfirlýsingu stjórnar félagsins á Bergvin Oddsson formann þess og tilögu stjórnar um að vísa honum úr embætti.

Eftir miklar umræður og áður en til atkvæðagreiðslu kom náðist málamiðlunartillaga sem meðal annars felur í sér að Bergvin Oddsson hættir sem formaður Blindrafélagsins og Halldór Sævar Guðbergsson, sem gegnt hefur starfi varaformanns, tekur við sem formaður. Jafnframt verði skipuð svokölluð „sannleiksnefnd“ til að fara yfir og leggja mat á öll gögn tengd þeim atvikum sem leiddu til þess að meirihluti stjórnar og varastjórnar Blindrafélagsins lýsti yfir vantrausti á Bergvin Oddsson.

Halldór Sævar Guðbergsson hefur starfað innan Blindrafélagsins í meira en 25 ár. Hann nýtir mikils trausts meðal félagsmanna og þekkir félagið og starfsemi þess mjög vel.

Aðspurður um hvort ekki hefði verið hægt að ná þessari sátt fyrr og hvort ástæða hafi verið til að halda um 100 manna fund til að finna lausn eða farveg fyrir málið  sagði Halldór að því miður hefði verið óhjákvæmilegt að boða til fundarins þar sem formaður hefði neitað sök og hafnað hvers kyns sáttarumleitunum.

Ályktunin sem var samþykkt með 97 atkvæðum gegn 1 var svohljóðandi:

" Ályktun frá félagsfundi Blindrafélagsins

Félagsfundur Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, haldinn í Hamrahlíð 17, þann 30. september 2015, ályktar eftirfarandi:

1) Bergvin Oddsson, formaður Blindrafélagsins stígur til hliðar. Bergvin mun halda launum fram að næsta aðalfundi en lætur af embætti formanns frá og með 1. október 2015.

2) Aðalfundi Blindrafélagsins verður flýtt svo sem kostur er og skal hann haldinn eigi síðar en 1. febrúar 2016.

3) Sett skal á fót „Sannleiksnefnd“ skipuð þremur aðilum ótengdum Blindrafélaginu.

Stjórn og formaður skulu vera sammála um skipan nefndarmanna.

Sannleiksnefndin hefur það hlutverk að fara yfir og leggja mat á öll gögn, tengd atvikum, sem leiddu til þess að meirihluti stjórnar og varastjórnar Blindrafélagsins lýsti yfir vantrausti á Bergvin Oddsson, formann félagsins þann 22. september. Sannleiksnefndin skal skila áliti sínu og tillögum til stjórnar Blindrafélagsins í tíma fyrir næsta aðalfund. Niðurstöður sannleiksnefndarinnar skulu kynntar félagsmönnum á aðalfundi félagsins 2016. "

Undir lok fundarinns lýstii Bergvn Oddsson yfir framboði til formanns á næsta aðalfundi og sagði að kosningabarátta sín hæfist strax fyrir hádegi daginn eftir.