Gulllampinn, æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins, er veitt þeim einstaklingum sem hafa skarað fram úr vegna starfa sinna í þágu blindra og sjónskertra. Gulllampann má því aðeins veita að fyrir liggi einróma samþykki fulltrúa í stjórn og varastjórn. Skal skrifleg greinargerð fylgja tillögu um veitingu merkisins og skal hún birt um leið og Gulllampinn er afhentur.
Gunnari var veittur Gulllampinn síðast liðið vor og stóð til að afhenda hann á aðalfundi Blindrafélagsins, en sökum veikinda gat Gunnar ekki veitt lampanaum viðtöku þá. Það var síðan 1 nóvember 2012 sem efnt var til kaffisamsætis á Eir, þar sem Gunnar dvelur núna, og veitti Gunnar þar Gulllampanum viðtöku að viðstaddri fjölskyldu sinni.
Rökstuðningur.
Gunnar er fæddur 16. Mars 1936. Þegar hann var 10 ára gamall lenti hann í slysi, kvellhetta sprakk og missti hann hægri hönd og sjón á báðum augum. Þetta gerðist á bænum Streiti í Breiðdal þar sem Gunnar er fæddur.
Fljótlega fór Gunnar til Reykjavíkur. Stundaði nám í Blindraskólanum, vann hjá Blindraiðn við bursta og körfugerð auk þess sem hann stundaði hljóðfæraleik. Gunnar vann í áratugi á skiptiborði Sambands Íslenskra samvinnufélaga og síðar hjá Samskipum.
Gunnar er einn fyrsti blindi maðurinn sem fær atvinnu á almennum markaði. Hann er einnig afbragðs tónlistarmaður og leikur listavel á harmoniku, gítar, trompet og hljómborð. Hann var þjóðþekktur sem afburða lagasmiður.
Gunnar hefur með virkri samfélagsþátttöku, jákvæðri framkomu og glaðlyndi stuðlað að því að skapa jákvætt viðhorf til blinds og sjónskerts fólks. Hann var mikið á ferðinni og á tímabili átti hann leiðsöguhund, þann fyrsta sem kom til landsins.
Gunnar og eiginkona hans Guðríður Jóhanna Jensdóttir lögðu jafnframt drjúgan skerf til félagsstarfs Blindrafélagsins.
Fyrir þetta þá er Guðmundi Gunnarssyni veittur Gulllampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.