Frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar árið 2013

Hér er kynning á fimm frambjóðendum í aðalstjórn og varastjórn Blindrafélagsins

 

Frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar árið 2013

 

Gunnar Már Óskarsson er fæddur á Akureyri árið 1958 og uppalinn í Kópavogi. Hann býr einn og á þrjú uppkomin börn og tvö barnabörn. Gunnar er vélvirki að mennt. Hann hefur mest starfað við ýmiskonar verslunarstörf í byggingariðnaði og fleiru. Síðastliðin sjö ár hefur Gunnar Már starfað við pökkun og skrifstofustörf hjá Blindravinnustofunni. Til stendur að hann verði í afleysingum á skrifstofu Blindrafélagsins.

 

Gunnar hefur komið að ýmsum félagsstörfum. Hann sat um tíma í stjórn Verslunarmannafélags Suðurnesja, var formaður starfsmannafélags Kaupfélags Suðurnesja, sat í stjórn Samtaka sykursjúkra og einnig sat hann sem varamaður í stjórn Blindrafélagsins árið 2006 til 2008.

 

Gunnar hefur verið lögblindur vegna sykursýki frá árinu 2005 og gekk þá fljótlega í Blindrafélagið. Hann hefur síðan  tekið virkan þátt í félagsstarfinu og var um tíma í tómstundarnefnd.

 

Ef Gunnar nær kjöri til stjórnar eða varastjórnar vill hann vinna með stjórninni að öllum góðum málefnum sem eru og verða í gangi.

 

 

Haukur Sigtryggsson er fæddur vestur á Ísafirði árið 1928. Hann er kvæntur og búsettur í Hafnarfirði. Þau hjónin eiga fimm börn og átján barnabörn. Á árum áður starfaði Haukur við skiltagerð, teikningar og silkiprentun. Hann er áhugaljósmyndari og var leiðbeinandi fyrir unglinga við ljósmyndagerð og framköllun hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur um tíma og var í framhaldi af því ráðinn sem starfsmaður við æskulýðsstörf. Um árabil starfaði hann sem forstöðumaður Æskulýðsheimilis í Hafnarfirði. Haukur starfaði sem ráðsmaður Hafnafjarðarbæjar í áratug, eða þar til hann hætti störfum rúmlega sjötugur.

 

Haukur hefur verið í félagi áhugaljósmyndara og sat þar í stjórn og var formaður um tíma. Ennfremur var hann einn af stofnendum Siglingaklúbbsins þyts þar sem hann sat í stjórn. Um tíma var hann formaður í Kvæðamannafélagi Hafnarfjarðar. Haukur var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Perlunnar í Reykjavík. 

 

Haukur er lögblindur, hann hefur verið mjög virkur í félagsstarfi Blindrafélagsins frá því hann gekk í félagið fyrir sjö árum.Hann hefur setið í stjórn og varastjórn Blindrafélagsins síðastliðin fjögur ár.

 

Ef Haukur nær kjöri til stjórnar eða varastjórnar mun hann styðja við starfsemi opna hússins og vinna að bættri ferðaþjónustu.  Jafnframt mun hann styðja við öll góð málefni sem stjórnin vinnur að.

 

Hlynur Þór Agnarsson er fæddur austur á Kirkjubæjarklaustri árið 1988. Hann býr með kærustu sinni Berglindi Jónsdóttur í eigin íbúð í Breiðholtinu. Fimmtán ára gamall fluttist hann til Reykjavíkur til að stunda framhaldsnám. Árið 2008 útskrifaðist hann sem stúdent á viðskiptabraut á viðskiptasviði frá Verslunarskóla Íslands. 

Hlynur stundar nú framhaldsnám á jazz píanó við Tónlistarskóla F.Í.H. Hann lauk námi við kennaradeild skólans vorið 2011. Lokaverkefni hans í kennaradeildinni var rannsóknarritgerð á tónlistarkennslu blindra og sjónskertra á Íslandi. Í kjölfarið skrifaði hann ásamt Eyþóri Kamban Þrastarsyni kennslubók í tónfræði og punktaletursnótum. Sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

 

Í dag starfar Hlynur sem tónlistarkennari við Fossvogsskóla. Í vetur hefur hann starfað sem umsjónarmaður opins húss hjá Blindrafélaginu einu sinni í mánuði.

 

Hlynur er stofnandi og er enn meðlimur í hljómsveitinni The Visionaries en í þeirri hljómsveit eru meðlimirnir fjórir félagsmenn í Blindrafélaginu. Auk þess spilar Hlynur með ýmsum tónlistarmönnum bæði innan og utan skóla.

 

Síðastliðin tvö ár hefur Hlynur setið sem varamaður í stjórn Blindrafélagsins. Hann er einnig í skemmtinefnd.

 

Hlynur hefur verið sjónskertur frá fæðingu. Hann var gjaldkeri í stjórn Ungblind í þrjú ár. Árið 2006 var Hlynur í skipulagsnefnd fyrir Ungblind um ungmennaskipti þegar að áttatíu blind og sjónskert ungmenni frá ýmsum Evrópulöndum dvöldu hér í tíu daga. Hann ásamt tveimur öðrum sjónskertum voru í fullu starfi meðan unga fólkið dvaldi hér.

 

Ef Hlynur nær kjöri til stjórnar eða varastjórnar vill hann vinna ötullega að öllum þeim málum sem koma á borð stjórnar og vera opinn fyrir öllum nýjum hugmyndum og tækifærum sem upp koma.

 

 

María Hauksdóttir er fædd í Reykjavík árið 1949. Hún er nú búsett í Reykjanesbæ ásamt eiginmanni sínum Leifi A. Ísakssyni kennara. Þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn.  

 

María hefur mikla reynslu af ýmiskonar ritara og skrifstofustörfum hjá stofnunum og fyrirtækjum sem hún starfaði hjá um árabil, auk þess sem hún var verkefnastjóri á menningarsetrinu að Útskálum í sex ár.

 

Eftir stúdentspróf  lauk hún námi í rekstrar og viðskiptafræðum frá Endurmenntunardeild Háskóla Íslands. Í september n.k. mun hún ljúka BA gráðu í guðfræði við Háskóla Íslands og stefnir á að halda áfram í meistaranámi í framhaldi af því.

 

María hefur tekið þátt í ýmsum félagsstörfum.Hún var formaður Lön sem er félag öldungadeildarnema í Fjölbrautaskóla Suðurnesja , einnig var hún Formaður Steinfróða, félags áhugamanna um steina- og  jarðfræði. María Fór í gegnum félagsmálakerfi JC og sat þar í nokkrum nefndum. Um árabil sat hún í stjórn ferðanefnd Ferðafélags Íslands.

María hefur séð um alfa námsskeið í Keflavíkurkirkju, Útskálakirkju Hvalsneskirkju og Ytri- Njarðvíkurkirkju, einnig sá hún um tólf spora námskeið í Keflavíkurkirkju um árabil. Þar fyrir utan hefur hún verið bæði þátttakandi og meðstjórnandi á fjölmörgum kyrrðardögum í Skálholti.

 

Hún hefur stundað útivist í áratugi og hefur unun af að sofa undir berum himni.

 

María hefur fengið þjálfun í mannlegum samskiptum m.a. í Alfa- og tólfspora starfinu og á pílagrímaferðum víða um lönd.

 

María hefur verið sjónskert frá því hún var um fimmtugt og er greind með : Hereditary Retinal Dystrophy (Stargardt´s disease). Hún hefur verið félagsmaður í Blindrafélaginu í nokkur ár og hefur oft gist í gestaíbúðinni og tekið þátt í félagslífinu.

 

Ef María nær kjöri til stjórnar eða varastjórnar mun hún leggja áherslu á að vinna að bættri þjónustu ferðaþjónustu blindra. Hún vill auka möguleika blindra og sjónskertra til að stunda útivist og hreyfingu. Hana langar að  sjá opna húsið þróast t.d. með því að bjóða upp á dansæfingar og fleiri nýungar.  Einnig langar hana að hvetja unga fólkið til að láta drauminn rætast.

 

 

Ólafur Þór Jónsson er fæddur suður í Vogum á Vatnsleysuströnd árið 1942.  Hann er kvæntur og á þrjú börn og sjö barnabörn.  Ólafur er sjúkranuddari að mennt og hefur rekið eigið fyrirtæki í þrjátíu og átta ár í húsi Blindrafélagsins. Auk þess hefur Ólafur starfað við ýmis störf til sjós og lands.

Síðastliðin þrjátíu og fjögur ár hefur Ólafur setið í stjórn Íþróttasambands fatlaðra.  Hann er einn af stofnendum Félags íslenskra heilsunuddara og Nuddskóla Íslands.  Hann hefur um árabil setið í stjórn Bergmáls, Trimmklúbbsins Eddu og Heilsuhringsins.  Ólafur er einn af stofnendum Lionsklúbbsins Perlunnar í Reykjavík

Ólafur hefur verið félagsmaður í Blindrafélaginu frá 1968 eða fjörutíu og fimm ár. Hann hefur verið sjónskertur frá barnæsku og alblindur frá því hann var þrítugur.  Ólafur sat um árabil í stjórn Blindrafélagsins, hann var varaformaður í fjögur ár, ritari í tvö ár og gjaldkeri síðastliðin tvö ár Hann hefur starfað í fjáröflunarnefnd, tómstundanefnd, endurhæfingarnefnd og heilsuklúbbsnefnd. Ólafur hefur verið trúnaðarmaður frá upphafi kerfisins árið 1998. Ólafur hefur á síðasta ári verið í nefnd sem skoðar atvinnumöguleika blindra og sjónskertra.

Ef Ólafur nær kjöri til stjórnar eða varastjórnar vill hann leggja áherslu á endurhæfingarmál, stofnun deildar sykursjúkra, stuðla og hvetja til að fleiri komi í opna húsið og að fólkið fái jafnframt meiri hreyfingu þar. Einnig vill hann að fólk af landsbyggðinni fái alla þá aðstoð sem hægt er að veita.