Fatlaðir og Laugavegurinn
Í gær þann 4. júlí röltum við Skytturnar þrjár niður Laugarveginn og fórum vinstra megin frá Hlemmi. Við höfðum aðgengið undir smásjá og tókum vel eftir öllu sem á vegi okkar varð. Margar búðir og kaffihús voru með tröppur eða kanta fyrir innganginum svo hjólastólar komast bara alls ekki inn. Þetta fannst mér undarlegt, af hverju ætli fólk sé að reka búðir eða kaffihús þegar aðgengið er alger hörmung? Þarna var t.d. ein nammibúð á fyrstu hæð en þó þurfti að labba niður þrjár tröppur til að komast í búðina og fannst mér leiðinlegt að komast ekki þangað inn til að kaupa mér nammi. Þetta minnir mig á eitt, u m það leyti sem jólin nálgast og fólk fer í bæinn að versla og á kaffihús, þarf ég oft að labba lengi úti í kuldanum áður en ég finn einhvern stað sem hentar mínum þörfum.
Það er eins og fólk vilji að fatlaðir fái lungnabólgu og kvef og allt það versta. Ég vil benda á sáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem stendur meðal annars, að fatlaðir hafi jafnan rétt á við alla aðra til að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu, og þar er miðbær Reykjavíkur engin undantekning. Það má vera að sum húsin í miðbænum séu friðuð en það breytir engu því stundum er hægt að laga aðgengi án þess að negla einn einasta nagla t.d. er hægt að setja færanlega rampa fyrir inngangana. Hér er um að ræða réttindi fólks á móti friðuðum húsum, hvort finnst ykkur vera mikilvægara?
Áslaug Ýr Hjartardóttir