Boðun félagsfundar.

Þann 10. febrúar sl. samþykkti félagsfundur í Blindrafélaginu með 77% greiddra atkvæða að vísa frá tillögu sem lá fyrir fundinum um að stjórn félagsins drægi til baka vantraust sitt á Bergvin Oddsson formann félagsins. Þrátt fyrir að niðurstaðan hafi verið  afdráttarlaus hefur stjórninni nú borist beiðni frá 15 félagsmönnum um að boða til nýs félagsfundar til að fjalla um sama mál. Enda þótt stjórn sé ekki skylt að verða við slíkri beiðni, og geri sér að auki grein fyrir því að hér sé reynt enn eina ferðina á þolinmæði og langlundargeð félagsmanna, vill hún virða þörf þessa hóps til að fá umræðu og atkvæðagreiðslu endurtekna. Jafnframt minnir stjórn Blindrafélagsins á að aðalfundur félagsins verður haldinn innan fjögurra vikna og hefði hann verið eðlilegur vettvangur til þess að útkljá ágreining um starfshætti stjórnar.

Stjórn Blindrafélagsins telur sannleiksnefndina sem skipuð var til að fara yfir atburðarás og aðdraganda vantrauststillögunnar hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að henni var beinlínis skylt að bregðast við þeim vanda sem upp var kominn. Stjórnin stendur því við ákvarðanir sínar en víkur sér ekki undan frekari umræðu úr því að eftir því er leitast.

Að beiðni framangreinds hóps félagsmanna er því boðað til félagsfundar miðvikudaginn 2. mars næstkomandi  kl. 17:00 að Hamrahlíð 17. Til umfjöllunar er tillaga fimmtánmenninganna sem inniheldur hvatningu til stjórnar um að draga vantrauststillögu sína til baka.

 

Reykjavík 24. febrúar 2016

F.h. stjórnar Blindrafélagsins

Halldór Sævar Guðbergsson, starfandi formaður stjórnar

Bætt við 25.febrúar 2016:

"Þar sem þess hefur verið farið á leit af félagsmönnum að krafa um boðun félagsfundar verði birt félagsmönnum, ásamt tillögunni sem ræða á og nöfnum flutningsmanna, þá er hér með orðið við því. 

Reykjavík, 19. febrúar 2016

Við undirritaðir félagsmenn í Blindrafélaginu förum fram á að haldinn verði almennur félagsfundur í félaginu hið fyrsta, sbr. 6. grein laga Blindrafélagsins, en þar segir  að stjórn skuli boða til og halda fundinn innan hálfs mánaðar frá því að ósk berst. Ástæða fundarbeiðninnar er sú, að við teljum að stjórn og félagsmenn hafi fengið nægjanlegt andrými til að taka afstöðu til skýrslu Sannleiksnefndar Blindrafélagsins, enda teljum við það mjög óeðlilegt að stjórn félagsins telji sig þurfa sérstakt "andrými" til að fjalla um eigin misgjörðir eftir að ljóst er hún hafi ekki gefið Bergvini Oddssyni, formanni svigrúm þegar mjög alvarlegar ásakanir komu fram á hendur honum.  

Fundarefni verði umræður og atkvæðagreiðsla um eftirfarandi tillögu:

Félagsfundur Blindrafélagsins hvetur stjórn félagsins eindregið til þess að draga vantraustsyfirlýsingu sína á Bergvin Oddsson, formann Blindrafélagsins til baka, eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund Blindrafélagsins, eða 9. mars 2016, þar sem vantrauststillagan snýr að viðskiptum Bergvins við varastjórnarmanninn Patrek Andrés Axelsson og meintan trúnaðarbrest milli formanns og stjórnar vegna viðskiptanna.  Í skýrslu Sannleiksnefndar Blindrafélagsins er sagt, að það sé alls ekki augljóst, að formaður hafi rofið trúnað við stjórn Blindrafélagsins og að stjórnin hafi farið á stjórnarfundinn 22. september 2015 með takmarkaðar upplýsingar og hafi farið offari með framgöngu sinni gagnvart Bergvini, og virt andmælarétt hans að vettugi. Orðalag vantrauststillögunnar er harkalegt að mati Sannleiksnefndarinnar og að ekki sé hægt að fallast á að Bergvin hafi vélað Patrek til viðskipta, líkt og stjórn Blindrafélagsins ályktaði á umræddum stjórnarfundi.  Enda telur Sannleiksnefndin að stjórnarhættir Bergvins og vantrauststillagan séu sér aðskilin mál, sem sést best á því að í vantrauststillögu stjórnar er hvergi talað um stjórnarhætti formanns.  

Þorsteinn Guðmundsson
Vilhjálmur H. Gíslason
Valdimar Sverrisson
Sveinn Lúðvík Björnsson
Sigurður Ármann Sigurjónsson
Sigtryggur R. Eyþórsson
Sigríður S. Jónsdóttir
Páll E. Jónsson
Magnús Jóel Jónsson
Kristrún Skúladóttir
K. María Jónsdóttir
Guðrún Pálsdóttir
Guðrún Bjarnadóttir
Friðgeir Þráinn Jóhannesson
Einar Haraldsson"