Blint barn á vergangi

Þróun undanfarinn ára, hækkun leiguverðs og minna framboð á langtíma leiguhúsnæði hefur komið illa við marga og þá sérstaklega öryrkja. Ófáir hafa snúið sér til Blindrafélagsins til þess að fá aðstoð við að finna sér hentugt húsnæði. Félagið ræður yfir 20 íbúðum og getur því stundum útvegað húsnæði, en hefur samt engan vegin undan að leysa þörfina sem er mun meiri. Blindrafélagið vinnur með skjólstæðingum sínum og sveitarfélögum til þess að reyna að knýja á um að fundið sé viðeigandi lausn. En skortur á félagslegu húsnæði og ósamræmi hvað snertir skyldur sveitarfélaga gerir það að verkum að erfiðara og erfiðara er að finna lausnir.

Fyrir nokkru barst Blindrafélaginu beiðni um aðstoð frá fjölskyldu í Reykjavík sem hefur misst húsnæði og hefur ekki tekist að tryggja sér annað. Sjö ára dóttir hjónanna er blind, og hefur fengið mjög góða þjónustu í skóla og frá Þjónustu og Þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Hún hefur aðlagast vel aðstæðum og hingað til gengið vel í skólanum. En stúlkan er tvítengd og foreldrarnir komu hingað frá Rúmeníu. Allt þetta góða starf er nú í uppnámi sökum þess að fjölskyldan finnur ekki húsnæði í Reykjavík. Borgin hefur ekki getað aðstoðað nema með því að greiða hluta kostnaðar við uppihald á gistiheimilum og því fátt til ráða.

-          Maður veltir fyrir sér hvort  við séum komin á þann stað að við þurfum að höfða til almennings um aðstoð í svona málum. Sveitarfélögin virðast ráðþrota og Blindrafélagið hefur ekki tök á að hýsa alla. Segir Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins.

Aðlögun blindra og sjónskertra barna í grunnskóla er flókið og viðkvæmt ferli. Mörg blind og sjónskert börn upplifa mikla einangrun og það þarf því að vanda mikið til verka þegar börnin hefja skólagöngu til að tryggja þeim góðan grunn inní framtíðina. Það er erfitt að ímynda sér að slíkt starf geti farið eðlilega fram á meðan barnið getur ekki treyst á það að hafa þak yfir höfuðið.

-rmh