Alþjóðalegur dagur hvíta stafsins er 15.október og af því tilefni eru haldnir viðburðir um heim allan sem minna á mikilvægi stafsins og aðgengismál. Ungblind, ungmennasamtök Blindrafélagsins, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, ætla í tilefni dagsins að leggja áherslu á aðgengi í einni helstu menntastofnun landsins.
Noisy vision eru samtök sem starfa á öðruvísi máta fyrir aðgengi. Þau eru stofnuð af Ítalanum Dario Sorgato. Dario er með Usher-syndróm sem leiðir til sífellt meiri sjón- og heyrnarskerðingar. Eitt aðalverkefni þeirra kallast „Yellow the World“ og miðar að því að vekja athygli á hversu einfalt það getur verið að gera aðgengi fólks með sjón- og/eða heyrnarskerðingu öruggara og betra, stundum þarf ekki annað en að mála gula rönd. En af hverju valdi Ungblind Háskóla Íslands?
„Þar sem það hefur ítrekað verið ýtt á Háskóla Íslands að bæta aðgengi fyrir blinda og sjónskerta og ekkert hefur gerst ákváðum við að taka málin í okkar eigin hendur,“ segir Sigríður Hlín Jónsdóttir formaður Ungblindar, „og vekja athygli á sjónrænu aðgengi á háskólasvæðinu með því að merkja tröppur og fræða fólk um aðgengi í leiðinni.”
Gjörningurinn fer fram 13. október, tveim dögum fyrir dag hvíta stafsins og munu félagar í Ungblind og aðrir reyna að ná að gula byggingar skólans eins mikið og hægt er, svo hann verði mun aðgengilegri.
Frekari upplýsingar veitir Sigríður Hlín Jónsdóttir, formaður Ungblindar, í síma 772 2886