Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands lýsa sig reiðubúin til að koma að fjármögnun náms við Háskóla Íslands.

Að viljayfirlýsingunni stóðu Blindrafélagið, Blindravinafélag Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands (MVS),og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (ÞÞM).


Stefnt verður að því að hefja kennslu í stökum námskeiðum haustið 2015 og að 60 eininga diplómanám á framhaldsstigi hefjist haustið 2016.

Námið mun fara fram á námsbrautinni Menntunarfræði og margbreytileiki í Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs. MVS skipuleggur námið og skipar undirbúningsnefnd sem í eiga sæti fjórir aðilar frá MVS og þrír frá öðrum aðilum þessarar viljayfirlýsingar. Unnið verður að málinu innan þess lagaramma og reglugerða sem HÍ starfar eftir.

Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands munu koma að fjármögnun verkefnisins að hluta til samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert verður þar um.


Á myndinni eru frá vinsti til hægri: Bergvin Oddsson formaður Blindrafélagsins, Jóhanna Einarsdóttir forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Huld Magnúsdóttir forstjóri Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Helga Eysteinsdóttir formaður Blindravinafélags Íslands.

Rökstuðningur

Á undanförnum árum hefur þjónusta við blinda og sjónskerta nemendur batnað mikið á Íslandi; frá því að vera nánast engin árið 2006 í þá stöðu að nú árið 2014 er kennurum allra skóla sem blindir og sjónskertir nemendur stunda nám í boðin ráðgjöf og stuðningur sérmenntaðra kennsluráðgjafa sem starfa hjá ÞÞM. 

Rúmlega 100 blind og sjónskert börn (0 - 18 ára) eru á skrá hjá ÞÞM. Þau dreifast á marga skóla um landið og á hvert barn samskipti við fleiri en einn kennara. Það er því ljóst að nokkur hundruð starfsmenn skólakerfisins koma að kennslu og samskiptum við blinda og sjónskerta einstaklinga.

Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands hafa sett umtalsverða fjármuni í að mennta fagfólk til að starfa með blindum og sjónskertum einstaklingum og hefur sú menntun aðallega verið sótt erlendis. Þessi viljayfirlýsing markar upphaf þess að komið verði á sérhæfðu námi á þessu sviði hér á landi, í þeim tilgangi að mennta fleiri fagaðila til starfa með blindum og sjónskertum  einstaklingum.