Blindrabókasafn Íslands verður Hljóðbókasafn Íslands

Í desember 2012 voru samþykkt á Alþingi Íslendinga Bókasafnslög og á sama tíma féllu úr gildi sérlög um Blindrabókasafn Íslands. Sjá hér hin nýju Bóksafnslög. Við þetta breytist nafn Blindrabókasafn Íslands í Hljóðbókasafn Íslands.

Um hlutverk Hljóðbókasafns Íslands segir í lögunum:

"Hljóðbókasafn Íslands er í eigu ríkisins og fer ráðherra með yfirstjórn þess. 
 Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda.
     Hljóðbókasafn Íslands skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnamála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins. Til að rækja hlutverk sitt sem best er safninu heimilt að gera þjónustu- og samstarfssamninga við slíka aðila.
     Kostnaður við starfsemi Hljóðbókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Tekjum safnsins skal varið í þess þágu."

Fallist var á sameiginlega tillögu stjórnar Blindrafélagsins og stjórnar Blindrabóksafns Íslands um að inn í lögin væri bætt ákvæði um samstarfshóp sem væri forstöðumanni til ráðgjafar. Um skipan hópsins segir í lögunum:

„Skal einn fulltrúi tilnefndur af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, einn af Félagi lesblindra, einn af Félagi íslenskra sérkennara, einn af Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, og einn af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í samráðshópinn lengur en tvö samfelld starfstímabil.“