Bergvin Oddsson gefur kost á sér sem formaður Blindrafélagsins

Á síðustu vikum hef ég fengið eindregna hvatningu og stuðning frá fjölmörgum félagsmönnum Blindrafélagsins á öllum aldri, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni, til þess að gefa aftur kost á mér í formannsembættið á næsta aðalfundi Blindrafélagsins sem haldin verður í upphafi næsta árs.

Ég hef ákveðið að taka þeirri áskorun félagsmanna að halda áfram að vera í forystu Blindrafélagsins á næstu tveimur árum og mun því bjóða fram krafta mína til þess að leiða Blindrafélagið áfram til góðra verka.

Eftir að ég var kjörinn formaður félagsins þann 17. maí 2014 hafa tekjur vegna fjáraflana Blindrafélagsins aukist jafnt og þétt, stofnaðar hafa verið Vesturlandsdeild, Leiðsöguhundadeild, Suðurnesjadeild og AMD deild Blindrafélagsins. Allt til þess gert að efla grasrótarstarf Blindrafélagsins og færa félagsmenn á landsbyggðinni nær Blindrafélaginu og þeirri fjölbreyttu starfsemi og þjónustu sem fer fram í Hamrahlíð 17. Einnig hafa stór skref verið stigin í auknu aðgengi félagsmanna að ferðaþjónustu Blindrafélagsins og kastljósinu verið beint að málefnum barna og unga fólksins okkar. Blindrafélagið ýtti úr vör stóru ímyndarátaki Blindir sjá á vormánuðum til að varpa ljósi á ólíkar birtingamyndir sjónskerðinga og sömuleiðis að vekja athygli almennings á að blindir og sjónskertir einstaklingar eru virkir þátttakendur í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi. Þau eru ófá verkefnin sem Blindrafélagið hefur ýtt úr vör á sl. áratugum ásamt því að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum og fordómum í garð blindra og sjónskertra um land allt. Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar á síðustu áratugum eru fjölmörg óunnin verkefni til þess að auka aðgengi blindra og sjónskertra að rafrænum upplýsingum, atvinnu, samgöngum, menningu og menntun svo fátt eitt sé nefnt hér. Til þess að svo megi vera áfram þarf kraftmikla forystu Blindrafélagsins sem er tilbúin að berjast fyrir réttindum félagsmanna sinna til sjávar og sveita og vera sömuleiðis bæði vakin og sofin yfir þeim hindrunum sem félagsmenn verða fyrir á degi hverjum. Ég hóf framboðshringferð mína um landið fyrir nokkrum vikum síðan og mun á næstu vikum og mánuðum halda áfram framboðshringferð minni um landið til þess að kynna mig fyrir félagsmönnum og fjalla um þær áheyrslur sem ég hef staðið fyrir í formannstíð minni ásamt því að fjalla um það sem ég vil beita mér fyrir á næsta kjörtímabili og sömuleiðis hlusta eftir því sem félagsmönnum finnst skipta mestu máli.

Af hverju býð ég mig fram sem formaður Blindrafélagsins

Ég hef brennandi áhuga á félagsmálum og ýmsum samfélagsmálum. Ég vil láta gott af mér leiða á vettvangi Blindrafélagsins og halda áfram þeirri vinnu sem formaður Blindrafélagsins að afla félaginu tekna, ryðja úr vegi ýmsum fordómum í garð blindra og sjónskertra og síðast enn ekki síst að gefa enn fleiri blindum og sjónskertum einstaklingum tækifæri á að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi. Ég hef haft unun að því að starfa sem formaður Blindrafélagsins á þessu og síðasta ári og ég hef verið til þjónustu reiðubúinn á nóttu sem og degi til að vekja athygli á málefnum og réttindum okkar félaga og ryðja úr vegi ýmsum hindrunum sem félagsmenn verða fyrir á degi hverjum. Ég tel að sú  reynsla sem ég hef öðlast í gegnum tíðina og sem formaður ykkar geti áfram nýst blindrafélaginu og þeim rúmlega 700 félagsmönnum sem lifa og starfa vítt og breitt um landið og eru á öllum aldri.

Hverju vil ég koma til leiða á næsta kjörtímabili

Það er mér mikilvægt að halda áfram að hlúa að því fjölbreytta og blómlega félagsstarfi innan Blindrafélagsins og stuðla áfram að því að félagsmenn okkar á landsbyggðinni færist nær Blindrafélaginu og þeirri fjölbreyttu þjónustu sem fer fram í Hamrahlíð 17.

Ég tel afar brýnt að allir félagsmenn Blindrafélagsins hvar sem þeir búa njóti þeirra mannréttinda að eiga kost á nútímasamtíma ferðaþjónustu þar sem krafan er að geta tekið leigubifreið þegar félagsmönnum hentar og án þess að þurfa að koma við á nokkrum stöðum í millitíðinni til þess að aka eða sækja aðra farþega.

Það þarf að hefja rannsóknir á félagslegri stöðu blindra og sjónskertra ungmenna á Íslandi, en engar slíkar rannsóknir eru til hér á landi. Niðurstöður rannsókna á mörgum hinna Norðurlandanna eru vægast sagt sláandi þegar horft er til félagslegra aðstæðna í þessum aldurshópi. Tækifæri til menntunar og atvinnu eru fátækleg og af skornum skammti. Þessi aldurshópur er oft á tíðum félagslega einangraður og hefur lítið sjálfstraust. Ég tel afar brýnt að Blindrafélagið stuðli strax að því að koma slíkri rannsókn af stað.

Einnig mun ég beita mér fyrir því að segja upp ráðningasamningi við núverandi framkvæmdarstjóra og auglýsa starf framkvæmdastjóra laust til umsóknar, þar sem allir geta sótt um starfið. Ég tel að það hafi verið óheppilegt af stjórn félagsins starfsárið 2013/14 að hafa ráðið þáverandi formann félagsins sem framkvæmdastjóra félagsins án þess að auglýsa starfið laust til umsóknar og gefa ekki þar með öllum kost á að sækja um starfið. Ég er sömuleiðis hugsi yfir því hvort það sé heppilegt að framkvæmdarstjóri félagsins eigi að vera líka félagsmaður.

Blindrafélagið þarf að beita sér af fullum krafti að auka atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra kvenna ásamt því að efla og styrkja þær til þess að fara út á vinnumarkaðinn. En íslensk rannsókn sínir að helmingi færri konur en karlar í hópi blindra og sjónskertra eru á atvinnumarkaðnum. Ég mun leggja fram lagabreytingatillögu á næsta aðalfundi að formaður þurfi að hljóta minnst 50% atkvæða til þess að vera kjörinn formaður Blindrafélagsins, nái enginn formannsframbjóðenda yfir helmingi atkvæða verði kosið á milli tveggja efstu í annarri umferð í allsherjar atkvæðagreiðslu.

Einnig mun ég leggja fram á næsta aðalfundi lagabreytingatillögu að starfsmenn Blindrafélagsins verði ekki kjörgengir í stjórn Blindrafélagsins.

                               Hver er Bergvin Oddsson

Ég er fæddur þann 16. apríl árið 1986 í Vestmannaeyjum. Þar sleit ég barnskónum og byrjaði ungur að skipta mér af samfélagsmálum og skrifaði reglulega greinar strax á grunnskólaaldri í Fréttir sem er héraðsfréttablað Vestmannaeyinga. Ég er fæddur alsjáandi og meðan ég sá iðkaði ég bæði knattspyrnu og handknattleik af miklum móð. Árið 2001 þegar ég var 15 ára gamall fékk ég Herpes frunsuvírus í í hægra augað og á einni viku var ég orðin lögblindur, því tveimur árum fyrr fékk ég sama sjúkdóm í vinstra augað. Þrátt fyrir að hafa misst sjónina ungur sá ég aldrei ástæðu til þess að gefast upp og leggja árar í bát. Því ég ákvað mjög fljótt að láta mína fötlun há mér eins mögulega lítið og hægt væri og sömuleiðis vildi ég vera virkur þátttakandi í samfélaginu og lifa innihaldsríku lífi.

Þegar ég lauk skyldunáminu í Vestmannaeyjum var stefnan tekin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem ég stundaði nám á félagsfræðibraut og lauk þar stúdentsprófi vorið 2008. Á meðan bjó ég í húsi Blindrafélagsins og kynntist þar öflugu félagsstarfi Blindrafélagsins og var fljótlega farinn að taka þátt í tómstundanefnd og Ung Blind, þar sem ég var formaður í nokkur ár, ásamt öðrum nefndum á vegum félagsins og sótti ýmsar ráðstefnur fyrir hönd félagsins bæði hér heima og erlendis. Haustið 2011 hóf ég svo nám við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og lauk þar B.A. prófi vorið 2014. Ég hef einnig lokið 30 einingum í Mannauðsstjórnun sem ég tel að nýtist mér mjög vel í starfi sem formaður einna öflugustu hagsmunasamtaka fatlaðra á Íslandi.

Ég hef komið víða við í atvinnulífinu og öðlast fjölbreytta reynslu þar. Allt frá því að vera símasölumaður og starfsmaður í leikskóla í að starfa á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og verið í bókaútgáfu og í eigin rekstri ásamt því að hafa skrifað nokkrar bækur. Frá árinu 2003 hef ég komið fram sem fyrirlesarinn og skemmtikrafturinn Beggi Blindi og skemmt landsmönnum um allar sveitir landsins. Ég hef heimsótt vel á annað hundrað skóla og æskulýðssamkomustaði til þess að fræða ungmenni um málefni blindra og sjónskertra og þannig gefið ungu fólki tækifæri á að skyggnast inn í daglegt líf blindra og sjónskertra. Ég sat í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar árið 2009 til 2013 og var kjörinn formaður Hverfisráðs Grafarvogs í fyrrasumar.Ég hef komið að stofnun nokkurra félagasamtaka ásamt því að vera í stjórn ráðs um málefni fatlaðs fólks við Háskóla Íslands sem fulltrúi stúdenta. Sömuleiðis sit ég í stjórn Brynju hússjóðs ÖBÍ sem fulltrúi Velferðarráðuneytisins. Ég hef mikinn áhuga á félagsmálum og mannréttindamálum fatlaðra ásamt því að hafa áhuga á íþróttum og íslenskri tónlist. Ég er kvæntur Fanný Rósu Bjarnadóttur, hjúkrunarfræðing, og saman eigum við tvo syni, þá Odd Bjarna 6 ára og Heiki Orra sem verður tveggja ára í upphafi næsta árs

Ég hef staðið vaktina sem formaður ykkar  og býð aftur fram krafta mína fyrir alla félagsmenn til þess að leiða Blindrafélagið áfram til góðra verka á næstu tveimur árum. Ég hvet  ykkur til þess að hafa samband við mig ef ég get orðið ykkur að liði og ef eitthvað er sem ykkur liggur á hjarta.

 

                               Með Baráttukveðjum

                                Bergvin Oddsson

                               Netfang bergvino@simnet.is og gsm 895 8582