Halldór Sævar Guðbergsson hefur tilkynnt að hann gefi kost á sér til embættis formanns Blindrafélagsins á næsta aðalfundi félagsins sem verður í upphafi næst árs. Áður hafði Bergvin Oddsson tilkynnt um framboð til formanns, en það gerði hann undir lok félagsfundarins þann 30 september, þegar hann steig til hliðar sem formaður, efir umfjöllun félagsfundarinns um vantrauststillögu sem stjórn félagsins hafði samþykkt á hann á stjórnarfundi 22. september 2015.
Halldór Sæva hefur sent frá sér svohljóðandi tilkynningu í tengslum við formannsframboð sitt.:
"Kæru félagar.
Með þessum pósti vil ég, Halldór Sævar Guðbergsson, tilkynna ykkur að ég hef ákveðið að gefa kost á mér til embættis formanns Blindrafélagsins á næsta aðalfundi félagsins sem fram fer í byrjun árs 2016.
Á síðustu dögum og vikum hef ég fundið fyrir miklum stuðningi og hvatningu frá mörgum félagsmönnum, sem hafa hvatt mig eindregið til að gefa kost á mér í þetta embætti. Einnig hef ég frá því að ég varð starfandi formaður félagsins velt fyrir mér framtíðarsýn Blindrafélagsins og séð hversu mörg brýn og spennandi verkefni eru framundan. Blindrafélagið hefur náð miklum árangri í þau 76 ár sem félagið hefur starfað, bæði þegar horft er á starfsemi félagsins og einnig þegar horft er á réttindi félagsmanna.
Árangur félagsins hefur vakið eftirtekt bæði hérlendis og erlendis. Blindrafélagið hefur notið mikils trausts meðal félagsmanna, almennings, fyrirtækja og opinberra aðila í gegnum tíðina. Það traust verðum við að gera allt sem við getum til að varðveita svo það geti nýst okkur til góðra verka í framtíðinni.
Undirritaður hefur starfað í Blindrafélaginu í yfir 25 ár og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, bæði innan þess og utan. Störfin hafa verið margvísleg í gegnum tíðina, allt frá því að sitja í grasrótarnefndum eins og skemmtinefnd, tómstundanefnd og ferða- og útivistarnefnd svo eitthvað sé nefnt, til þess að sitja í stjórn félagsins og gegna formannsembætti tvisvar sinnum á þessu 25 ára tímabili. Ég tel að reynsla mín af málefnum Blindrafélagsins og félagsmanna þess muni nýtast vel á þessum vettvangi.
Einnig hef ég mikla reynslu af því að starfa fyrir öryrkja og í dag er ég varaformaður Öryrkjabandalags Íslands. Ég er menntaður íþróttakennari og starfaði lengi við íþróttakennslu og íþróttaþjálfun, alveg þangað til að sjónin var orðin það léleg að ég gat ekki starfað við það lengur. Ég hef verið blindur á vinstra auga frá fæðingu og lengst af var ég með 10% sjón á hægra auga. Frá september 2012 hef ég verið alblindur. Síðustu ár hef ég starfað sem fagstjóri á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga, en áður en ég tók það starf að mér starfaði ég sem formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Það er ekki ætlun mín að lofa einstaklingum eða einstökum hópum gulli og grænum skógum eins og er siður stjórnmálamanna, nái ég kjöri sem formaður félagsins. Hins vegar lofa ég ykkur því að starfa samviskusamlega og heiðarlega fyrir Blindrafélagið og alla félagsmenn þess.
Á næstu vikum og mánuðum mun ég kynna fyrir ykkur framtíðarsýn mína og þau brýnu verkefni og hagsmunamál blindra og sjónskertra sem ég vill beita mér fyrir. Ég mun gera mitt besta til að tryggja að gott og árangursríkt samstarfi get orðið innan félagsins okkar svo að Blindrafélagið verði áfram bæði öflugt og farsælt.
Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir okkur öll vegna þeirra leiðindamála sem upp komu hjá félaginu. Nú er sannleiksnefnd að störfum og er afar mikilvægt að hún fái svigrúm og tækifæri til að vinna sína vinnu. Eftir að hún skilar af sér tel ég mikilvægt að það fari fram sáttaferli innan félagsins. Mitt fyrsta verkefni sem formanns, ef ég næ kjöri á næsta aðalfundi, væri að hlúa vel að innra starfi félagsins, því þannig náum við að vera sterk út á við.
Að lokum vil ég hvetja til jákvæðra samskipta meðal félagsmanna, gerum innra starfið skemmtilegt, fjölbreytt og kraftmikið og verum dugleg að styðja hvort annað í lífsbaráttunni.
Þið getið alltaf náð í mig í síma 663 9800 eða á netfangið halldor@blind.is
Með vinsemd og virðingu,
Halldór Sævar Guðbergsson."