Amazon kaupir Ivona, framleiðanda nýja íslenska talgervilsins

Heill heimur nýrra möguleika opnast

Í gær, 24 janúar, var tilkynnt að Amazon, einn stærsti framleiðandi rafbóka, hljóðbóka og rafbókaspilara hafi fest kaup á pólska talgervilsframleiðandanum Ivona, sem m.a. er framleiðandi að nýju íslensku talgervilsröddunum Dóru og Karli, sem Blindrafélagið hafði forgöngu um framleiðslu á. Sjá fréttatilkynningu.

Í fréttatilkynningu vegna kaupanna segir m.a:

“Amazon hefur fest kaup á Ivona sem er leiðandi fyrirtæki í heiminum í þróun og framleiðslu talgervilslausna.”

 Eftirfarandi er haft eftir David Limp varaforseta Amazon Kindle:

“Starfsfólk Ivona deilir með okkur ástríðu fyrir nýjungum og brennandi þrá til að gera vel við viðskiptavini okkar og við hlökkum mikið til framleiðslu á frábærum nýjum vörum og að geta boðið viðskiptavinum okkar um allan heim talandi lausnir í fremstu röð.”  

 „Í meira en 10 ár hefur starfsfólk Ivona einbeitt sér að því að þróa og framleiða nýja tækni við að smíða talgervla (text-to-speach tecnologies)“ segir Lukazs Osowski, stjórnarformaður og meðstofnandi Ivona. „Við erum í skýjunum yfir að Amazon sé tilbúið að styðja við vöxt Ivona þannig að við getum haldið áfram að þróa nýja tækni og að bjóða framúrskarandi stuðning við raddir og tungumál viðskiptavina okkar.“   

Birkir Gunnarsson aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins hafði eftirfarandi að segja:

 “Ætla má að með kaupunum hugist Amazon stórbæta stuðning við aðgengi og hljóðlestur í tækjabúnaði sínum, en fyrirtækið hefur sætt harðri gagnrýni vegna aðgengisleysis að Kindle rafbókaspilurum sínum. Amazon hefur einnig sterk tengsl inn í símsvörun og sjálfvirk talgreinakerfi, auk þess sem þeir reka eina stærstu vefverslun heims, einkum með raftæki og annan tæknibúnað. Náin tengsl Ivona við slíkan tæknirisa býður upp á marga spennandi möguleika, og raddir frá Ivona gætu farið að skjóta upp kollinum í alls kyns rafbúnaði. Því teljast þetta jákvæðar og spennandi fréttir, og staðfestir að það eru fleiri en við á Íslandi sem hafa trú á gæðum og sérþekkingu Ivona þegar kemur að rafrænum hljóðlestri. Róm var ekki byggð á einni nóttu, og Kindle tæki með íslenskum talgervli líta ekki dagsins ljós um helgina, en allt bendir til þess að vinir okkar Karl og Dóra séu á leið á vit nýrra ævintýra í alls kyns raftækjum, og við fáum að njóta afrakstursins.”