Ályktun frá stjórn Blindrafélagsins

Stjórn Blindrafélagsins lýsir þungum áhyggjum yfir sífellt lengri  biðlista eftir að komast í nauðsynlegar aðgerðir til koma í veg fyrir blindu eða alvarlega sjónskerðingu. Um 1.500 manns eru nú á biðlista eftir aðgerðum til þess að fjarlægja ský af augasteini og er eins og hálfs árs bið eftir aðgerðum af þessu tagi, sem borgaðar eru niður af sjúkratryggingum. Ský á augasteini er lang algengasta orsök alvarlegrar sjónskerðingar og blindu í löndum sem búa við vanþróað heilbrigðiskerfi.

Á Landspítalanum eru framkvæmdir um þúsund aðgerðir á ári, eða eins margar aðgerðir og deildin ræður við. En vegna mikils niðurskurðar þá hefur augndeildin þurft að forgangsraða aðgerðum í þágu aðkallandi bráðatilfella, sem flest eru af völdum votrar aldurstengdrar hrörnunar í augnbotnum (AMD).. Það hefur leitt til þess að aðgerðum til að fjarlægja ský á augasteini hefur fækkað mikið og því eru nú fjölmargir sem eru að tapa lífsgæðum á meðan að beðið er eftir að fara í tiltölulega einfalda og ódýra aðgerð.

Það er mikið inngrip í líf fólks þegar sjónmissir verður þess valdandi að hæfni til að sinna athöfnum daglegs lífs hrakar stöðugt. Það er t.d. staðreynd sem fáir gera sér grein fyrir að þeir sem eru með sjón á bilinu 0,3 - 0,5 (30% - 50% með bestu gleraugum) eiga ekki rétt á neinni þjónustu eða aðstoð og að einstaklingur sem er með sjón undir 0,5 má t.d. ekki aka bifreið.

Sjónmissir getur hæglega leitt til þess að einstaklingar detta út af vinnumarkaði um leið og athafnir daglegs lífs verða æ erfiðari, m.a. vegna þess að þjónusta er ekki í boði nema til þeirra sem eru með sjón undir 0,3.

Í dag geta þeir sem eru á biðlista borgað sjálfir fyrir aðgerðina á einkastofu en þá kostar aðgerðin á bilinu 175 til 400 þúsund krónur. Þá kemst fólk í aðgerð innan nokkurra daga eða vikna.

Er það æskileg þróun að það verði eingöngu betur efnað fólk sem hefur ráð á einföldum augnaðgerðum í tíma til að forðast alvarlega sjónskerðingu eða blindu með tilheyrandi lífskjaraskerðingu?

Stjórn Blindrafélagsins hvetur íslensk stjórnvöld til að bregðast skjótt við og sjá til þess að íslenska heilbrigiskerfinu verði ekki leyft að molna niður innanfrá vegna fjárskorts, með þeim afleiðingum að ekki verði unnt að verja mestu verðmæti hvers samfélags - heilsu landsmanna. Að brjóta þá samfélagssátt sem ríkt hefur á Íslandi um að heilbrigðiskerfið skuli rekið er á samfélagslegum forsendum mun reynast íslensku samfélagi dýrkeyptari en nokkurn grunar.

Reykjavík 7.nóvember 2014.

Fyrir hönd stjórnar Blindrafélagsins

Bergvin Oddsson Formaður
gsm 895 8582