Ályktun félagsfundar Blindrafélagsins um húsnæðismál

Til verkefnisins var stofnað af stjórn Blindrafélagsins. Það felur í sér að koma sem mestu af þeirri lykilþjónustu, sem blindir og sjónskertir sækja, undir eitt þak í nýju húsnæði. Húsnæðið verði aðgengilegt og sérstaklega hannað utan um starfsemina með þarfir blindra og sjónskertra að leiðarljósi.  Þar verði m.a. til húsa hin nýja Þjónustu- og þekkingarmiðstöð, Blindrabókasafnið, starfssemi Blindrafélagsins og Daufblindrafélagsins.

 

Markmiðið með verkefninu “Þjónustuna undir eitt þak” er að byggja upp þjónustumiðstöð fyrir blinda og sjónskerta og um leið öflugt þekkingarsamfélag fagaðila. Stefnt er að því að bæði þjónustan og aðstaðan verði í fremstu röð þess sem þekkist í dag.

 

Það voru metnaðarfullir og framsýnir félagsmenn Blindrafélagsins sem á sínum tíma stóðu fyrir því að Hamrahlíð 17 var byggð. Engin áform eru nú uppi um að selja þá húseign. Þvert á móti telur fundurinn að tilvist Hamrahlíðar 17 og stórhugur brautryðjendanna veiti innblástur og hvatningu til að verkefnið, „Þjónustuna undir eitt þak“, verði að veruleika.“