STYRKAR STOÐIR BLINDRAFÉLAGSINS

Rebekkustúkan nr.1 Bergþóra var stofnuð í maí árið 1929 en árið 1937 kom ein af systrunum með þá tillögu að þær máluðu jólarós á kerti og seldu. Ágóðann af sölu kertanna ætti að nota til þess að styrkja blinda og sjónskerta og hafa þær systur síðan komið saman óslitið tvisvar í viku í sjötíu ár til þess að mála kertin sem þær selja á aðventunni ár hvert.   Í tilefni af 70 ára afmæli Kertasjóðsins árið 2007 veittu þær sjóðnum Blind börn á Íslandi rausnarlegan styrk í minningu látinna Bergþórusystra.  Styrkurinn hljóðar upp á 500.000 krónur. Stjórn sjóðsins  vill fyrir hönd allra blindra og sjónskertra barna á Íslandi votta þeim Bergþórusystrum þakklæti sitt fyrir réttsýni þeirra og höfðingsskap.

 Vinátta – Kærleikur – Sannleikur  eru einkunnarorð Oddfellowreglunnar, en hlekkirnir þrír í merki reglunnar tákna þessi einkunnarorð.  Rætur Oddfellowreglunnar má rekja aftur til miðalda þegar  iðnaðarmenn og kaupmenn stofnuðu stéttarfélög sín á milli er kölluð voru gildi. Gildin settu sér reglur og gildisbræður höfðu einkarétt til atvinnu í sinni borg og grein. Í Englandi voru þessi gildi kölluð stúkur og urðu þau grundvöllur þess sem síðar varð Oddfellowreglan. Aðdragandi að stofnun  reglunnar hér á landi var sá að danskir Oddfellowar tóku sér fyrir hendur að reisa sjúkrahús fyrir holdsveika í Laugarnesi við Reykjavík. Þetta einstæða framtak erlendra félagasamtaka vakti að sjálfsögðu virðingu og áhuga Íslendinga sem ákváðu í framhaldinu að stofna fyrstu Oddfellowstúkuna á Íslandi stúku nr.1 Ingólfur I.O.O.F sem var stofnuð árið 1897. Innan reglunnar nú starfa bæði bræðrastúkur og systrastúkur og eru bræðrastúkurnar 23 en Rebekkustúkurnar eru 14 talsins.

Að styrkja grundvöll vináttu,  kærleika og sannleika meðal manna og kenna þeim að orðin tóm nægja ekki að fullu er markmið sem  blindir og sjónskertir hafa notið góðs af úr höndum Rebekkusystra í áratugi.  Gerðir þeirra vekja ekki einungis þakklæti heldur líka óblandna virðingu fyrir fórnfúsu og ötulu starfi þeirra í þágu líknar og menningarmála í landinu á fjölmörgum sviðum. 

Bergþórusystur hafa styrkt ýmsa starfsemi er tengist málefnum blindra og sjónskertra,  til að mynda augnlækningatæki til Landspítalans og húsgögn í Hamrahlíð 17.

Kertin eru fagurlega máluð og henta einstaklega vel til tækifærisgjafa jafnt og til yndisauka á eigin heimili.