Eftirfarandi frétt er tekin af vef Háskóla Íslands:
"Styrkir til blindra og sjónskertra nemenda við Háskóla Íslands (03.12.2007)
Styrkir til blindra og sjónskertra nemenda við Háskóla Íslands að upphæð 1 milljón króna
- fyrsti styrkur sinnar tegundar hér á landi -
Á alþjóðadegi fatlaðra mánudaginn 3. desember var í fyrsta sinn úthlutað styrkjum til blindra og sjónskertra nemenda til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir voru veittir úr Þórsteinssjóði og afhenti rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, þá við hátíðlega athöfn á nývígðu Háskólatorgi.
Fyrstu styrkþegar Þórsteinssjóðs eru þau Gunnar Valur Gunnarsson og Erla Soffía Jóhannesdóttir. Heildarupphæð styrkja var 1 milljón króna og hvor styrkur kr. 500.000. Gunnar Valur Gunnarsson stundar MS nám í tölvunarfræði við Verkfræðideild Háskóla Íslands og Erla Soffía Jóhannesdóttir stundar BA nám í þýsku við Hugvísindadeild Háskóla Íslands. Bæði Gunnar Valur og Erla Soffía hafa sýnt framúrskarandi námsárangur við skólann.
Þórsteinssjóður er til minningar um Þórstein Bjarnason, stofnanda Blindravinafélags Íslands. Megintilgangur sjóðsins er að styrkja blinda og sjónskerta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar, og ýta þannig undir tækifæri blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum,
sem falla að tilgangi sjóðsins.
Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006. Sjóðurinn er jafnframt hinn fyrsti sinnar tegundar hér á landi en tilkoma hans eykur möguleika blindra og sjónskertra til háskólanáms. Að þessu sinni voru kr. 500.000 til úthlutunar úr sjóðnum. Auk þess lagði Blindravinafélag Íslands fram kr. 500.000 viðbótarframlag þannig að alls voru til úthlutunar 1 miljón króna. Sjóðnum bárust sex umsóknir, sem allar uppfylltu skilyrði til styrkveitingar.
Úr þeim hópi valdi stjórn Þórsteinssjóðs tvo ofangreinda styrkþega.
Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins, sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til stuðnings fötluðu fólki á Ísland. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum á Íslandi á 20. öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu til fé úr eigin vasa.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólks."
Ef einhverjir vilja skoða myndir frá athöfninni má fara inn á eftirfarandi slóð:
http://hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/wa/dp?detail=1012732&name=frettasida