150 milljónir

1. janúar 2009 er mikilvæg dagsetning í hagsmunabaráttu blinds og sjónskerts fólks hér á landi, á þeim degi tóku gildi lög um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þessi lög eru meðal annars merk fyrir það að vera einu lögin sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga fyrir áramót veturinn 2008 sem ekki voru tengd hruninu. Samþykkt þessara laga, sem mikil samstaða var um, var mikið heillaspor. Sést það meðal annars vel á því að þegar Miðstöðin tók til starfa var ekki vitað um neinn blindan eða sjónskertan einstakling í háskólanámi. Nú eru þeir þrettán talsins. Einnig hefur orðið mikil fjölgun í hópi framhaldsskólanema og punktaleturslesenda, en þeim hafði fækkað mikið. Börn og ungmenni upp að 18 ára sem njóta þjónustu Miðstöðvarinnar varðandi t.d. skóla og tómstundir eru 113. Enn þjónustan við þennan hóp er allt önnur og betri en verið hefur hér á landi fram til þessa.

Í dag er dagur Hvíta stafsins, alþjóðlegur baráttu og vitunadardagur blinds og sjónskerts fólks. Af því tilefni verður að venju tilkynnt um styrki úr styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins, Stuðningur til sjálfstæðis. Frá stofnun Miðstöðvarinnar þá hefur Blindrafélagið, ásamt Blindravinafélaginu og öðrum öflugum samstarfsaðilum, svo sem eins og Lions á Íslandi, og fjölmörgum öðrum velunnurum sinum, lagt umtalsverða fjármuni í verkefni sem eru mikilvæg hagsmunum blindra og sjónskertra einstaklinga.

Styrkir veittir úr styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins; Stuðningur til sjálfstæðis og Menntunarsjóði til blindrakennslu.:

  • Náms- ferða- og ráðstefnustyrki til fagfólks sem starfa með blindum og sjónskertum einstaklingum, eða vinna að hagsmunamálum þeirra: 14 milljónir króna.
  • Náms-, ferða-, endurhæfingar- og ráðstefnustyrki til félagsmanna Blindrafélagsins: 2 milljónir króna.
  • Styrki til  kaupa á hjálpartækjum og tölvubúnað: 1,4 milljónir króna.
  • Styrki til verkefna sem eru hagsmunum blindra og sjónskertra til framdráttar: 2.9 milljónir króna.

 Önnur verkefni:

  • Talgervilsverkefni Blindrafélagsins sem margir aðilar komu að fjármögnun á: 85 milljónir.
  • Leiðsöguhundaverkefnið: 26 milljónir króna.
  • Vefvarpsverkefni Blindrafélagsins: 6 milljónir króna.
  • Styrkur til Hljóðsbókasafns Íslands til uppsetningar á Daisy streymisaðgangi: 12 milljónir króna.
  • Kaup á tæki til tilraunameðferðar við RP sem gefið var Augndeild LSH, 1 milljón króna.

Frá árinu 2008 hefur Blindrafélagið haft frumkvæði að og forgöngu um að 150 milljónir íslenskra króna hafa verið settar í mikilvæg og verðmæt verkefni til hagsbóta fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga hér á landi. Flest, ef ekki öll, hafa verkefnin haft þann tilgang að styðja blindra og sjónskerta einstaklinga til sjálfstæðis.

Blindrafélagið stefnir að því að halda áfram að taka frumkvæði í þessum málaflokki í þeim tilgangi að stuðla að auknu sjálfstæði og bættum lífsgæðum blinds og sjónskerts fólks. Öllum þeim einstaklingum og samstarfsaðilum sem lagt hafa félaginu lið í þessum verkefnum eru færðar bestu þakkir fyrir stuðninginn.