Þriðjudaginn 15. október er Dagur Hvíta stafsins. Alþjóðlegur dagur blindra og sjónskertra. Blindrafélagið mun efna til dagskrár af þessu tilefni. Dagurinn mun að verulegu leiti verða helgaður börnum og ungmennum og mun verða efnt sérstaks barna og ungmennaþings þar sem sjónum verður beint að aðstæðum blindra og sjónskertra barna og ungmenna þegar kemur að menntun og tómstundum. Þátttakendur í barna og ungmennaþinginu mun mæta klukkna 12.00 á hádegi og snæða saman pizzu. Klukkan 13:00 hefst síðan dagskrá þar sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna mun verða kynntur fyrir krökkunum. Að þeirri kynningu lokinni mun verða skipt upp í hópa og munu hóparnir fjalla um það sem þeim finnst vera gott og það sem er ekki svo gott í skólanum og tómstundastarfi. Á sama tíma mun verða hefðbundin dagskra í opnu húsi, sem er sérstaklega sniðið að óskum eldri félagsmanna Blindrafélagsins. Félagsmálaráðherra mun heimsækja hús Blindraféalgsins og kynna sér starfsemi félagsins og Blindravinnustofunnar.
Klukkan 16:00 verður síðan samkoma í sal Blindrafélagsins í tilefni dagsins. Á samkomunni munu krakkarnir kynna niðurstöður úr vinnunni sinni, tilkynnt verður um úthlutun styrkja úr Stuðningi til sjálfstæðis, styrktarsjóði Blindravinafélagsins og Blindrafélagsins og að lokum verður kynning á nýrri þjónustu í vefvarpi Blindrafélagsins, sem er ein mesta bylting í aðgengi eldra blinds og sjónskerts fólks að fjölmiðlum og afþreyingu. Meðal annars verður formlega opnað fyrir fullan aðgang að öllum bókakosti Hljóðbókasafns Íslands í gegnum vefvarpið fyrir notendur safnsins sem eru með vefvarp.