Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins skrifar.
Seinustu daga hafa nokkrir félagar mínir í Blindrafélaginu og aðrir komið að máli við mig og lýst yfir undrun sinni yfir því sem þeim hefur fundist vera skrítinn umfjöllun á RUV á málefnum tengdum blindum og sjónskertum. Kallað hefur verið eftir því að ég og/eða Blindrafélagið bregðist við þessu með einhverjum hætti. Athugasemdirnar sem gerðar hafa verið hafa snúist um:
· Umfjöllun Kastljóss þar sem Kastljós gerði grein fyrir hvernig nokkrir ungir menn upplifðu að binda fyrir augun á sér í nokkra daga. Í kynningu Kastljóss var atriðið kynnt sem hvernig væri að vera blindur. Því miður sá Kastljós ekki ástæðu til að tala við blinda einstaklinga og fá viðhorf þeirra til þess hvernig er að vera blindur, sem hefði dýpkað þessa umfjöllun verulega. Eftir sat umfjöllun sem var bæði villandi og meiðandi í garð blindra einstaklinga. Athugasemdir sem ég gerði við þessa umfjöllun var fálega tekið og tilgangur umfjöllunarinnar, eins og hann var kynntur í kynningartexta á vefsvæði Kastljóss, var meira að segja afneitað í vörninni.
· Frétt um fyrstu háskólaritgerðina sem skilað var á punktaletri(blindraletri) hérlendis. Arnþór Helgason sendi í tengslum við þessa frétt eftirfarandi athugasemd:
„Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld kom fram að lokaritgerð til háskólaprófs hefði í fyrsta sinn verið skilað hér á landi á blindraletri nú fyrir skömmu. Fyrsti blindi Íslendingurinn útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA-próf í íslenskum fræðum árið 1978. Námið var þá samsett úr sögu og íslensku. Ba-ritgerðin, sem skilað var, var svo sannarlega skrifuð á blindraletri og síðan vélrituð af höfundi. Ólafi Hanssyni var skilað báðum eintökum ritgerðarinnar, en hann taldi ekki ástæðu til að halda blindraleturseintakinu eftir, enda gat hann ekki lesið það.
Þá kom fram í skýringu fréttamanns að blindraletrið væri á undanhaldi og nú væru fáir blindraleturslesendur eftir. Þetta er ekki alls kosta rétt. Notendur Blindraleturs eru nú sennilega á þriðja tug hér á landi og hafa ALDREI verið fleiri. Ef Íslendingar ættu að bera sig saman við aðrar þjóðir ættu lesendur blindraleturs að vera a.m.k. 70. Ástæður þess, að þeir eru ekki fleiri, má rekja til fortíðarinnar, þegar útgáfa bóka var mjög takmörkuð.“
Í þessari frétt er beinlínis farið rangt með staðreyndir. Ég hef ekki orðið var við neina leiðréttingu. Hvað veldur?
· Frétt um sýningu myndarinnar „In Darkness“ með sjónlýsingusem sýnd var í Bíó Paradís 28 september. Í fréttinni var fjallað á villandi hátt um að myndin hentaði vel blindu fólki vegna þess að hún gerðist að miklu leiti í myrkri. Þetta er ályktun sem er alröng og gefur til kynna þá villandi mynd að blindir búi í eða við myrkur. Þrátt fyrri að fjöldi blindra einstaklinga hafa verið á sýningunni var ekki talað við neinn þeirra um gildi sjónlýsinga fyrir blint og sjónskert fólk, heldur var borgarstjóri Reykjavíkur, sem er allra góðra gjalda verður, beðinn um álit sitt á sjónlýsingum.
Allar þessar umfjallanir eiga það sameiginlegt að vera villandi, jafnvel rangar, og sumt meiðandi, út frá sjónarhóli blindra og sjónskertra einstaklinga. Vinnubrögðin virðast jafnframt endurspegla mjög einsleitt viðhorf í garð blinds og sjónskerts fólks, svo einsleits að það er ekki talin ástæða til að fá þeirra álit eða viðhorft til málefna sem skipta þá miklu máli. Hvað veldur?
Nú er rétt að halda því til haga að á vettvangi RUV hafa verið margar vandaðar umfjallanir um málefni blindra og sjónskertra einstaklinga og enginn almennur fjölmiðill hefur í raun gert betur í þeim efnum. Þessum athugasemdum er alls ekki ætlað að varpa neinni rýrð á það. Það er hinsvegar mikilvægt að benda á það sem aflaga fer og það er hlutverk samtaka eins og Blindrafélagsins að koma á framfæri upplýsingum um þann margbreytileika sem býr í aðstæðum og veruleika blindra og sjónskertra einstaklinga og berjast gegn því að einsleit og villandi ímynd verði til.
Þann 10 október næstkomandi er alþjóðlegur sjónverndardagur og fimmtudagurinn 15 október er Dagur Hvíta stafsins, alþjóðlegur dagur blindra og sjónskertra. Ég er þess fullviss að þá muni RUV standa að vandaðri umfjöllun um málefni þessa hóps, eins og svo oft hefur verið gert.