Víðavangshlaup samtakanna "Meðan fæturnir bera mig" til styrktar sjóðnum Blind börn á Íslandi

1. júní 2013 söfnuðust saman hópar fólks í Reykjavík, á Siglufirði og á Neskaupsstað til þess að hlaupa saman undir merkjum samtakanna „Meðan fæturnir bera mig“. Samtökin stóðu fyrir 5 km. víðavangshlaupi í Öskjuhlíðinni í Reykjavík, á Siglufirði og á Neskaupsstað og tilgangurinn var að safna peningum til styrktar  Sjóðnum Blind börn á Íslandi. Á öllum þessum stöðum voru samankomnir knáir hlauparar  sem höfðu  mikinn og góðan styrk á bak við sig,  því alls söfnuðust 984.700 krónur til styrktar sjónskertum börnum á Íslandi.  Sjóðurinn Blind börn á Íslandi sendir bestu þakkir til allra þeirra sem lögðu það á sig að taka þátt í hlaupinu,  þeirra sem lögðu hlaupurunum fjárhagslegt lið og stjórn samtakanna „Meðan fæturnir bera mig“  Takk fyrir þennan mikla stuðning sem kemur að góðum notum til þess að sjóðurinn geti áfram styrkt sjónskert börn og foreldra þeirra við að efla sjálfstæði og félagslega þátttöku sjónskerta barna í samfélaginu.

Í samstarfi við Foreldradeild Blindrafélagsins hefur sjóðurinn lengi haft það á stefnuskrá að efla hreyfigetu sjónskerta barna og stuðla að þátttöku þeirra í íþróttum.  Til þess þarf að vera hægt að bjóða upp á sértæka þjálfun og íþróttaviðburði sem taka mið af sérstöðu þeirra.   Sjóðurinn Blind börn á Íslandi hefur verið að huga að því að kaupa sértækt hlaupabretti eða annan útbúnað til þess að geta boðið sjónskertum börnum uppá æfingaaðstöðu þar sem unnið er með göngulag og líkamsbeitingu sem styrkir líkamsstöðu þeirra. Einnig eru uppi áform um að halda sérstakt skíðanámskeið fyrir blind og sjónskert börn, annaðhvort í Bláfjöllum eða á Akureyri til þess að kenna þeim tækni við að renna sér á skíðum án þess að skapa sjálfum sér eða öðrum óþarfa hættu í skíðabrekkunum.  Þessi áform eru að sjálfsögðu kostnaðarsöm og mun því söfnunarféð koma að góðum notum til þess að hrinda þessum áformum í framkvæmd.