Frá og með 19. september er hægt að hlusta á talandi útgáfu af Morgunblaði dagsins gegnum vefvarp Blindrafélagsins. Blaðið er lesið af Karli, íslenskri Ivona rödd sem er afrakstur talgervilsverkefnis Blindrafélagsins. Þessi þjónusta bætist við aðra þjónustu vefvarpsins eins og rauntíma lestur sjónvarpstexta.
Talandi útgáfa Morgunblaðsins er opin öllum vefvarpsnotendum. Fyrst og fremst mun þetta verða þjónusta sem nýtt verður af eldri félagsmönnum Blindrafélagsins. Flestir þeirra eru illa eða alls ekki tölvulæsir og hafa jafnframt tapað eiginleikanum til að lesa vegna ellihrörnunar í augnbotnum. Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins segir þetta sé þjónusta sem hann hafi fyrst haft kynni af árið 2008 á vörusýningu á þingi evrópskra Blindrafélaga. Það hafi svo ekki verið fyrr enn á seinasta ári, þegar smíði talgervilsins lauk, verið raunhæfur möguleiki á því að bjóða uppá sjálfvirka talandi útgáfa af öllu efni dagblaðs. Samstarf við Morgunblaðið þurfit einnig að koma til og veitir Morgunblaðið Blindrafélaginu aðgang að HTML útgáfu blaðs hvers dags um leið og blaðið fer í prentun. Þegar HTML útgáfa blaðsins liggur fyrir fer í gang sjálfvirkt ferli sem felst í því að Karl, önnur íslenska talgervilsröddin, les allt blaðið og hver grein er vistuð sem hljóðskrá undir kaflaheiti. Hljóðskrárnar eru svo gerðar aðgengilegar í gegnum vefvarpið. Að sögn Kristin mun nú verða óskað eftir samstarfi við aðra prentmiðla í þeim tilgangi að gera þá jafnframt aðgengilega í gegnum vevarp Blindrafélagsins fyrir blint og sjónskert fólk. Á næstu vikum er síðan von á að opnað verði fyrir aðgang að öllum hljóðbókakosti Hljóðbókasafns Íslands (áður Blindrabókasafnið) gegnum vefvarpið og mun það verða kynnt sérstaklega þegar þar að kemur.
Leiðbeiningar um hvernig hlustað er í gegnum vefvarpið.
Til að hlusta á Morgunblaðið þá er valinn liðurinn „Dagblöð og tímarit“ úr aðalvalmyndinni og svo „Morgunblaðið núverandi útgáfa“ til að hlusta á blað dagsins í dag og „Morgunblaðið fyrri útgáfa“ til að hlust á blað gærdagsins. Þegar komið‘ er inn í Morgunblaðið þá er lesinn upp fjöldi liða eða kafla blaðsins, eins og t.d. innlenti, erlent, ritstjórnargreinar, aðsent efni, minningargreinar og svo framvegis. Þegar kafli hefur verið valinni koma upplýsingar um fjölda liða í kaflanum og svo eru allir liðirnir lesnir, fyrst fyrsta greinin, svo sú næsta og svo koll af kolli. Til að hlaupa yfir grein eða fara til baka eru örvalyklarnir notaðir og svo „til baka“ takkinn til að fara aftur til baka valmyndir.