Vottun heimasíðu Tryggingamistöðvarinnar

Tryggingamistöðin hlaut vottun vefráðgjafarfyrirtækisins Sjár ehf og Öryrkjabandalags Íslands fyrir að hafa gert heimasíðu sína þannig úr garði að hún stenst kröfur forgangs III.

Eftirfarandi er tekið úr frétt af heimasíðu miðstöðvarinnar

www.tm.is

"Forgangur III þýðir í stuttu máli að vefur TM er orðinn aðgengilegur fyrir flesta þjóðfélagshópa. Meðal nýrra möguleika eru myndskeið á táknmáli fyrir heyrnarlausa,
til skýringar þar sem við á, textuð myndskeið og Netspjall TM þar sem heyrnarlausir geta spjallað við starfsmenn TM um tryggingamál. Þá getur nú lesblindur
notandi búið til sína persónulegu stillingu sem framvegis verður á TM vefnum þegar hann opnar hann. Til viðbótar þessu er boðið upp á orðalista/orðabók
á vefnum. Hljóðskrár eru einnig í boði í bílprófi TM sem ætti að henta þeim sem taka bílprófið munnlega. Einnig er hægt að velja auðlesið efni á vef TM svo eitthvað sé nefnt. Forgangur III felur að sjálfsögðu í sér að öll atriði samkvæmt forgangi I og II hafa verið uppfyllt.

Til þess að fá vottun um forgang I og II hafði TM meðal annars gert vefinn þannig úr garði að blindir og sjónskertir gátu notað talgervla og sérhönnuð lyklaborð með síðunni og stækkað letrið. Lesblindir gátu breytt um bakgrunnslit og hreyfihamlaðir vafrað án þess að nota músina. Til viðbótar þessu höfðu verið settar inn útskýringar á allar myndir, tenglaheiti gerð skýrari og stærð og tegund viðhengja látin koma vel fram. Enn fremur höfðu skammstafanir verið útskýrðar eða teknar út."
Varaformaður Blindrafélagsins var viðstödd fundinn og kom á framfæri ánægju okkar með vottunina.

Tryggingamiðstöðin er fyrst allra fyrirtækja á Íslandi til að hljóta þessa vottun.

Vonandi verður heimasíða þeirra öðrum fyrirtækjum fyrirmynd og hvatning til að gera heimasíður sínar aðgengilegri.