Sjóðurinn var stofnaður sumarið 1992 og er því orðin fimmtán ára. Forráðamenn sjóðsins hafa ekki farið út í að auglýsa sjóðinn mikið eða stofnað til sérstakra aðgerða til þess að afla fjár. Honum hefur þó á ýmsan hátt alltaf lagst gott til og nú hefur Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins ákveðið að láta söluandvirði jólamerkjanna árið 2007 renna til sjóðsins. Það hefur borið á því undanfarin ár að umsóknir um styrk úr sjóðnum til fartölvukaupa til skólabarna hafi aukist og eru fyrir því eðlilegar ástæður. Börnin hafa í auknum mæli getað notað sér nýjustu tækni við námið sem hefur auðveldað þeim skólavinnuna á margan hátt og eru því kærkomnar nýjungar. Það er þó nokkuð stór viðbótarkostnaður fyrir foreldra ungra barna að útbúa þau með slík tæki við upphaf skólagöngu og hefur sjóðurinn lagt allt kapp á það á undanförnum árum að koma til móts við foreldra með því að styrkja þau til fartölvukaupa fyrir börnin.
Thorvaldsensfélagið var stofnað 19.nóvember 1875. Nokkur hópur kvenna hafði verið fenginn til að prýða Austurvöll þegar koma átti fyrir styttu af Bertel Thorvaldsen. Þær fengu vinkonur og frænkur í lið með sér og skreyttu völlinn fagurlega með blómsveigum og marglitum ljósum. Þessi vinna sem var bæði skemmtileg og vakti mikla ánægju varð til þess að kvennahópurinn ákvað að halda hópinn og láta gott af sér leiða. Það var vandalaust að finna verkefni því að fátækt var mikil á þessum árum. Eitt af fyrstu verkefnum félagskvenna var að sauma ýmsan fatnað sem þær gáfu inn á fátæk heimili fyrir jólin en einnig buðu þær upp á jólatrésskemmtanir fyrir fátæk börn og eldra fólk og buðu þá upp á sjónleiki og ýmsa aðra skemmtun. Þær beittu sér fyrir því að vegur var lagður inn að Þvottalaugum og létu byggja þar skýli til að létta konum borgarinnar lífið við erfiðar aðstæður. Í breyttu samfélagi hefur Thorvaldsensfélagið staðið fyrir fjáröflun til styrktar barnadeildarinnar á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi og stofnuðu sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum. Félagið styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir og margs konar landssafnanir.
Barnauppeldissjóðurinn var stofnaður 1906 með það að markmiði að koma á fót uppeldisstofnun eða barnaheimili. Árið 1959 var hafist handa við byggingu vöggustofu við Dyngjuveg 18 í Reykjavík og var hún tilbúin árið 1963 og afhent borginni að gjöf. Síðan var ákveðið að stækka bygginguna og koma á fót barnaheimili fyrir eldri börn. Jólamerki Thorvaldsensfélagsins hefur frá upphafi verið ein helsta fjáröflunarleið félagsins og hafa ófáir listamenn gefið félaginu frummyndir sem prýtt hafa merkin gegnum tíðina. Segja má að merkin sameini æðri list og myndlýsingu hvunndagsins á ýmsan hátt en helstu teiknarar, grafískir hönnuðir og myndlistarmenn þjóðarinnar hafa verið höfundar merkjanna í heila öld. Ég vil því hvetja alla til þess að prýða jólapóstinn sinn þetta árið með merki Torvaldsensfélagsins sem að þessu sinni er mynd af jóladreng málaðri af Pétri Friðrik árið 1949. Allur ágóði af sölu merkisins rennur til styrktar sjóðnum Blind börn á Íslandi og verða þau til sölu á bazar Thorvaldsensfélagsins við Austurstræti og á skrifstofu Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17.