ALÞJÓÐLEG LISTAVERKASÝNING BLINDRA OG SJÓNSKERTRA LISTAMANNA
Sýningin er kölluð TYFLOART 2007 og verður haldin daganna 6. Til 9. september í Ústí nad Labem sem er um 100 kílómetra norður af Prag. Ústí nad Labem var á miðöldum mikilvægur verslunarstaður og eru íbúar um það bil 100 þúsund manns. Borgin stendur við rætur tignarlegra fjalla á bökkum Elbe og er núna eftirsóttur ferðamannastaður þar sem herragarðar frá nítjándu öld og miðaldakastalar hafa verið fallega uppgerðir og eru aðgengilegir ferðamönnum. Framlag listamannanna okkar er af ýmsum toga, en aðstandendur sýningarinnar leggja áherslu á að fá listamenn úr sem flestum listageirum til þátttöku.
Ólöf Valdimarsdóttir er félagsmaður í Blindrafélaginu. Hún er menntaður prentsmiður og tækniteiknari frá Iðnskóla Íslands, en hún hefur líka lokið námi á myndlistarbraut frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og leggur nú stund á nám við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Ólöf mun taka þátt í sýningunni í Tékklandi og ætlar þar að sýna bæði málverk og leirlist. Hún er ekki margmál um myndirnar sínar og vill láta áhorfendum það eftir að upplifa og skynja um hvað þær snúast. Hún málar litfagrar landslags- og blómamyndir sem eiga sér stað í huganum þar sem náttúran umhverfis er henni einungis óbein fyrirmynd. „Hugmyndir kvikna og taka mið af ákveðnu umhverfi „ Segir Ólöf og hún segist leggja áherslu á sterka liti í málverkum sínum. En náttúran er ekki einungis hlutlægt umhverfi manna, hún nær ekki síður til innri veruleika okkar svo sem ósjálfráðra viðbragða og hvata.
Tvær myndanna sem Ólöf sýnir í Tékklandi eru af sparifötum, en spariföt eru yfirleitt tilvísun í spennandi upplifun. Menn fara í spariföt við hátíðleg tækifæri og það fylgir þeim spenna og eftirvænting eftir ævintýrum. Ævintýrum sem geymast í huganum, kannski í hjartanu en þau taka líka mið af ákveðnu umhverfi og ytri aðstæðum. Sparifötin hennar Ólafar segja okkur að „eitthvað hefur skemmtilegt skeð“ eitthvað sem við getum einungis ímyndað okkur. Þegar við horfum á litfögur fötin sem eins og blakta í golunni þá reikar hugurinn á vit ævintýranna.
Sigríður Sólrún Jónsdóttir hefur unnið við vefnað í tómstundum undanfarin misseri og framlag hennar til sýningarinnar eru tvö ofin veggteppi ásamt hliðartösku sem er bæði falleg og notadrjúg. Teppin sem Sigríður sýnir í Tékklandi vísa á sinn hátt líka til náttúrunnar. Annað þeirra minnir óneitanlega á sólarlag þar sem grunnurinn samanstendur af brúnleitum jarðlitum en í miðjum myndfletinum hefur Sigríður sett í vefnaðinn þæfða ull í skínandi gulum og gráum litum. Hitt veggteppið er rautt í grunnin en í það eru ofnir bekkir með mismunandi áferð og glitfögrum þráðum. Rauði liturinn vísar til ástríðu og kærleika og áferðin er unnin með það í huga að hægt sé að þreifa á þeim og skynja með fingrunum það sem augað ekki sér . Með líkamlegri snertingu við verkið skiljum við myndirnar á annan hátt. Blindir og sjónskertir eiga auðveldara með að sjá það sem á myndunum er.
Arnheiður Björnsdóttir hefur eins og Sigríður lagt stund á vefnað í tómstundum undanfarin misseri og sýnir í Tékklandi tvo dúka eða löbera sem unnir eru úr litfögrum ullarþráðum. Arnheiður hefur lagt áherslu á sterka og skæra jarðliti í verki sínu en dúkarnir eru sléttir og mjúkir viðkomu sem eðli málsins samkvæmt er heppilegra fyrir notagildið.
Þær stöllur vísa þannig hver á sinn hátt til náttúrunnar í verkum sínum og er það óneitanlega eitt af einkennum íslenskra listamanna. Náttúra Íslands er bæði fögur og ógnvænleg og minnir stöðugt á sig bæði í gróðurfari, veðráttu og innri spennu. Hún speglar tilvistarleg átök mannsins og ræður sjálfsagt miklu um lunderni og sálarlíf þjóðarinnar allrar sem býr við ystu nöf á margan ólíkan hátt. Við losnum ekki svo glatt við náttúruna í öllum sínum myndum úr hugverkum okkar og listamenn vísa til hennar á ólíkan hátt bæði með tilvísun til landslags og tilfinninga.