Níu íslenskir hlauparar af hverjum tíu safna áheitum til stuðnings starfsemi um 100 líknar- og góðgerðarsamtaka

 

Nærri lætur að níu af hverjum tíu skráðra Íslendinga í Reykjavíkurmaraþoni ætli að hlaupa í þágu líknar- og góðgerðarsamtaka að eigin vali. Þannig safna þátttakendur áheitum frá fjölskyldum sínum, vinnufélögum, vinum eða öðrum þeim sem vilja hvetja hlauparana til dáða og styrkja í leiðinni gott málefni.

 

Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni geta valið úr hópi um 100 líknar- og góðgerðarfélaga af ýmsu tagi og safnað áheitum fyrir þau. Allir landsmenn, sem á annað borð nota greiðslukort og hafa aðgang að tölvu, geta síðan heitið á hlauparana og áheitaupphæðin rennur óskert til viðkomandi líknar- og góðgerðarfélags. Þá heitir Glitnir á starfsmenn sína og viðskiptavini og greiðir 3.000 krónur fyrir hvern kílómetra sem starfsmaður hleypur og 500 krónur á hvern kílómetra sem viðskiptavinur hleypur. Í fyrra söfnuðu 500 Glitnisstarfsmenn á þennan hátt alls 23 milljónum króna fyrir ýmis líknar- og góðgerðarsamtök. Í ár heitir Glitnir líka á viðskiptavini sína og þar með má fullvíst telja að tekjur líknar- og góðgerðarsamtaka af hlaupinu aukist verulega.

 

Af alls um 1.700 íslenskum hlaupurum sem þegar hafa skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið, hafa yfir 1.500 valið sér góðgerðarfélög til að hlaupa fyrir. Mörg þessara félaga eða samtaka eru nú á þessum áheitalista í fyrsta sinn, önnur voru þar í fyrra og uppskáru sum hver miklar og óvæntar tekjur. Þannig skiluðu áheitin í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis 2006 Geðhjálp ríflega 900.000 krónum, sem Sveinn Magnússon framkvæmdastjóri segir að hafi verið ánægjulegur búhnykkur. Verkefnalisti félagsins sé langur og þessir fjármunir hafi komið sér afar vel.

 

Þá má nefna að áheit í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra skiluðu MS-félaginu um 950.000 krónum sem Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður félagsins, líkir við himnasendingu. Fjármunina notaði MS félagið til að kaupa tækniþjónustu við að koma fræðslufundum sínum út á Vefinn þannig að félagsmenn um allt land gætu fylgst með útsendingum af fundunum heima hjá sér og setið allir við sama borð í þeim efnum.

 

 

·          Flest af þekktustu maraþonhlaupum veraldar eru jafnframt áheitahlaup, til dæmis í Lundúnum, New York, Boston og Berlín. Þessa áheitaleið ætla aðstandendur Reykjavíkurmaraþonsins að feta markvisst. Það er síðan undir líknar- og góðgerðarsamtökunum sjálfum komið að nýta slíka tekjuöflunarmöguleika sem mest og best með því að fá fólk til að hlaupa á sínum vegum, hvetja vini og velunnara viðkomandi málefnis/samtaka til að heita á „sína hlaupara“ og síðast en ekki síst að sjá til þess að félagsmenn mæti við hliðarlínuna og hvetji hlauparana sína til dáða. Þannig myndast gagnkvæm hvatning og stemming í kringum hlaupið og allir standa að lokum uppi sem sigurvegarar!

 

 

 

Nánari upplýsingar:

 

Frímann Ari Ferdinandsson,                                                              Pétur Þ. Óskarsson,

framkvæmdastjóri Reykjavíkurmaraþons Glitnis,               forstöðumaður kynningarmála Glitnis,

sími 864 9474                                                                                                  sími 8444990