Vekja athyggli á aðgengismálum

„Við gerum úttektir á stöðunum og fáum svo fundi með yfirmönnum þar sem við greinum þeim frá niðurstöðum okkar,“ segir Hörður Kolbeinsson. „Það eru alls staðar meira eða minna sömu hlutirnir sem þarf að bæta,“ bætir Eyþór Þrastarson við.

Í hópnum eru þrjú blind og sjónskert ungmenni, þau Eyþór, Dagný Kristjánsdóttir og Björn Andrésson. Þeim til halds og trausts eru svo aðstoðarmennirnir Hörður og Sindri Már Kolbeinssynir. Fimmmenningarnir hafa í sumar heimsótt fjölfarna staði eins og sundlaugar, Reykjavíkurflugvöll og nú síðast Kringluna. Þeir segja mikið vanta upp á merkingar, til dæmis við klósett og út- og innganga. Einnig þyrfti upplýsingatöflur á blindraletri svo einhver dæmi séu nefnd.

Hópnum hefur víðast hvar verið vel tekið en segir þó mismikinn áhuga vera á verkefninu. Flestir haldi að bætt aðgengi fyrir blinda og sjónskerta sé kostnaðarsamt og erfitt verkefni. „En þetta eru smávægilegir hlutir sem hægt er að gera fyrir lítið sem ekki neitt. Það er bara ekki hugsað um þetta. Þetta er meira spurning um tíma og vinnu heldur en peninga.“

Úttektirnar sem ungmennin gera eru ekki formlegar. Þau segja sitt hlutverk aðallega vera að vekja athygli á aðgengismálunum en ekki að standa í stappi yfir að hlutunum verði breytt. Til þess gefst einfaldlega ekki nægur tími, enda verkefnið bara átta vikur.

„Blindrafélagið sjálft var eiginlega versti staðurinn sem við höfum kannað. Sú úttekt var hvað harðorðust. Það er frekar öfugsnúið,“ segja Björn og Dagný. Aðstoðarmennirnir tveir bæta því við að Blindrafélagið ætti að vera fyrirmynd í þessum málum og mikilvægt sé að þar sé gott aðgengi.

Hópurinn hefur einnig fylgt eftir verkefni sem byrjað var á í fyrrasumar. Það felst í því að bjóða veitinga- og kaffihúsum að þýða matseðla yfir á blindraletur og prenta stækkaðar útgáfur fyrir sjónskerta. Nokkur veitingahús hafa þekkst boð þeirra og bjóða nú upp á sérstaka matseðla fyrir blinda og sjónskerta.

thorunn@frettabladid.is