Svarið frá Leiðsöguhundaskóla norsku Blindrasamtakanna er komið, niðurstaðan er ljós. Allir fengu umsækjendur lofsamlega umsögn og öll voru þau talin vera í þörf fyrir leiðsöguhund. Aftur á móti voru aðstæður þeirra misjafnar og þar með voru þau misjafnlega tilbúin til þess að taka á móti svo krefjandi hjálpartæki á þessari stundu. Lilja Sveinsdóttir, Guðlaug Erlendsdóttir, Alexander Hrafnkelsson og Friðgeir Jóhannesson munu taka á móti leiðsöguhundum næsta vor þegar þjálfun hundanna lýkur. Þau tvö sem ekki fengu úthlutað leiðsöguhundi í þetta skipti voru engu að síður talin vera prýðilega hæf til þess að fá hund þegar aðstæður þeirra leyfa og töldu þjálfarar og yfirmenn skólans að þau tvö þyrftu ekki að fara aftur á fornámskeið þegar þar að kæmi.
Reikna má með því að þjálfun leiðsöguhundana taki sex til átta mánuði en samkvæmt því eru þeir væntanlegir til landsins næsta vor til þjálfunar með nýjum notendum. Áformað er að þjálfunarnámskeiðið fari fram hér á landi og tveir þjálfarar frá Leiðsöguhundaskóla norsku Blindrasamtakanna komi hingað til lands til þess að þjálfa hópinn. Undirbúningur fyrir námskeiðið er í fullum gangi og að mörgu er að huga í því sambandi. Hundarnir sem koma til landsins þurfa að vera nokkrar vikur í sóttkví og það þarf að halda þjálfun þeirra við á þeim tíma en einnig er mikilvægt að kynna málið í samfélaginu þar sem Íslendingar eru almennt ekki vanir því að umgangast leiðsöguhunda og notendur þeirra í daglegu starfi.