Á ári hverju fæðast um 6-7 blind og sjónskert börn hér á landi, þar af að meðaltali tvö alblind. Orsakir sjónskerðingar meðal barna eru margvíslegar en algengust er sjónskerðing af heilatengdum orsökum, eða um 20%. Þá eru augun réttsköpuð en úrvinnslu sjónboða í miðtaugakerfi ábótavant. Láta mun nærri að á Íslandi séu í dag 108 blind og sjónskert börn (0-17 ára) og eru flest þeirra búsett á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Viðbótarfötlun er algeng og má þar nefna heyrnarskerðingu sem dæmi.
Meðferð blinduvaldandi sjúkdóma hjá börnum hefur fleygt fram á síðustu áratugum og telst nú fágætt að börn verði sjónskert til dæmis vegna skýmyndunar á augasteinum eða barnagláku sem voru með algengustu blinduorsökum hér á árum áður. Mikil og hröð þróun hefur verið við gerð sjónhjálpartækja á síðari árum, ekki síst tölvutengdra og má þar nefna stækkunarforrit, skjálestrarforrit, talgervla og GPS tæki. Þá er vaxandi áhersla á kennslu blindra og sjónskertra barna innan skólakerfisins. Í þessum efnum hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sannað ágæti sitt í góðri samvinnu við Blindrafélagið og líknarfélög eins og Lionshreyfinguna.
Þetta er meðal þess sem Guðmundur Viggósson augnlæknir Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga mun ræða á fundi Blindrafélagsins um orsakir blindu og sjónskerðingar hjá börnum, fimmtudaginn 11. október. Dagurinn er alþjóðlegur sjónverndardagur en tilgangurinn með honum er að vekja sérstaka athygli á afleiðingum blindu og hvað megi gera til að vinna gegn henni. Fundurinn er öllum opinn og er haldinn í samkomusal Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, 2. hæð, kl. 17:00. Aðgangur er ókeypis. Guðmundur Viggósson veitir fúslega nánari upplýsingar í síma 896 0898 eða í tölvupósti: gudmundur@midstod.is.
Mánudaginn 15. október er síðan Dagur hvíta stafsins. Þá stendur Blindrafélagið fyrir ýmsum viðburðum og má þar nefna hjálpartækjasýningu í fundarsal Blindrafélagsins, frá klukkan 14:00 – 17:00. Þann sama dag afhendir Blindrafélagið fyrirtæki eða stofnun Samfélagslampann en hann hlýtur fyrirtæki eða stofnun sem stuðlað hefur að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga. Nánar verður greint frá afhendingu viðurkenningarinnar síðar. Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, veitir fúslega nánari upplýsingar í síma 545 0000 eða í tölvupósti: khe@blind.is.
Lionshreyfingin er ötull stuðningsaðili við blinda og sjónskerta og gaf hreyfingin m.a. Landsspítala háskólasjúkrahúsi augnlækningatæki að andvirði 20 milljónir króna fyrr á árinu. Lions hefur einnig stutt dyggilega við talgervilsverkefni Blindrafélagsins en þar er um að ræða hugbúnað sem breytir texta í tal og var hleypt af stokkunum nýverið. Frá árinu 1925 hefur eitt stærsta verkefni alþjóðasambands Lionsklúbba hefur verið baráttan við afleiðingar blindu og gegn þeim sjúkdómum er geta valdið blindu. Það ár var Helen Keller boðið á alþjóðaþing Lions og þar skoraði hún á Lionshreyfinguna að leggja blindum og sjónskertum lið. Lions tók áskoruninni og í 87 ár hefur hreyfingin unnið unnið að margvíslegum sjónverndarverkefnum, jafnt í heimabyggð einstakra Lionsklúbba, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. Einar Þórðarson, annar tveggja sjónverndarfulltrúa Lionshreyfingarinnar á Íslandi, veitir fúslega nánari upplýsingar í síma 899 6469 eða í tölvupósti: einarthordar@gmail.com.