Alþjóðlegursjónverndardagur og Dagur Hvíta stafsins

Í þessari og næstu viku eru tveir alþjóðlegir dagar sem snúa að málefnum blindra og sjónskertra einstaklinga. Fimmtudagurinn 11. október er alþjóðlegur sjónverndardagur og mánudagurinn 15. október er dagur Hvíta stafsins. Báða þessa daga mun Blindrafélagið standa fyrir dagskrá.

Á alþjóðlegum sjónverndardegi, 11 október kl. 17:00,  munu Blindrafélagið og Lions á Íslandi í sameiningu boða til fræðslufundar í Húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, þar sem Guðmundur Viggósson augnlæknir mun flytja erindi um algengustu orsakir blindu og alvarlegra sjónskerðinga hjá börnum á Íslandi.

Mánudaginn 15 október verður viðamikil dagskrá í Húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17. Frá klukkan 09:00 – 12:00 mun verða aðgengisráðstefna með sérstakri áherslu á aðgengi blindra og sjónskertra að byggingum og umferðarmannvirkjum. Sjá dagskrá ráðstefnunnar hér fyrir neðan. Frá kl. 13:30 til kl. 17:00 verður hjálpartækjasýning og kl. 17:00 verður Samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir árið 2012 afhentur, en það er í fjórða árið sem lampinn er afhentur. Dagskránni lýkur svo með afhendingu styrkja úr Stuðningi til sjálfstæðis – styrktarsjóði Blindravinafélags Ísland og Blindrafélagsins.

 

RÁÐSTEFNA UM AÐGENGI Í TILEFNI AF DEGI HVÍTA STAFSINS ÞANN 15. OKTÓBER 2012

 Ráðstefnan verður haldin í sal Blindrafélagsins á 2. hæð að Hamrahlíð 17,  frá kl. 9:00 – 12:00

9:00              Ávarp formanns Kristins Halldórs Einarssonar

9:15              Áherslur í aðgengi blindra og sjónskertra, Vala Jóna Garðarsdóttir frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð 
                     blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga kynnir áherslur í aðgengi.

9:40              Aðgengi.is Harpa Einarsdóttir frá aðgengi.is kynnir merkjakerfi og áherslur í aðgengisúttektum.

10:00            Skyttunar Þrjár kynna lokaskýrslu frá aðgengisúttekt sinni í miðborg Reykjavíkur.        

 10:20           Kaffhlé: Boðið verður upp á kaffissmökkun og lúxus uppáhellingar frá Jónínu Tryggvadóttur,
                    kaffimeistara og góðgæti frá Litla Bóndabænum.

 10:40            Umræðan: Hvernig tryggjum við aðgengi allra í höfuðborginni okkar?

                     Þáttakendur í pallborðsumræðum:

                     Jakob Frímann Magnússon frá Miðborginni okkar

                     Björn Karlsson frá Mannvirkjastofnun

                     Sigurður Helgason frá Umferðastofu

                     Fulltrúar frá Skipulagsráði Reykjarvíkurborg og

                     Umhverfis og Samgöngusviði.

                     Fulltrúi frá Strætó

 11:30             Lokaávarp: Rósa María Hjörvar, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins

 

 

Allir velkomnir!