Réttindi fatlaðs fólks ávinnumarkaði

 

Þann 4. júlí sl. gekk dómur hjá Evrópudómstólnum í máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn ítalska ríkinu. Í málinu var deilt um hvort ítalska ríkinu bæri að gera öllum atvinnurekendum að viðhafa nauðsynlegar ráðstafanir, innan raunsærra marka, til að tryggja fólki með fötlun tækifæri til að hafa aðgang að, taka þátt í og ná árangri í atvinnu í samræmi við 5. gr. tilskipun Evrópusambandsins nr. 2000/87/EB um jafna meðhöndlun til atvinnu og starfa. Ákvæðið leggur bann við beinni og óbeinni mismunun, meðal annars vegna fötlunar og nær til þeirra sem starfa bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði.

Ítalska ríkið hafði ekki hagað löggjöf sinni með þeim hætti sem áskilið var í tilskipuninni og var því dæmt brotlegt.

Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl., eigandi á Málflutningsstofu Reykjavíkur, telur dóminn markverðan. Einkum megi draga tvær ályktanir af niðurstöðu Evrópudómstólsins. Í fyrsta lagi skýrði dómstóllinn hugtakið „fötlun“ í tilskipuninni með hliðsjón af sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þessi tilvísun eykur verndina sem ákvæðið veitir vegna þess að skilgreining sáttmála SÞ er víðtæk. Í öðru lagi er ekki aðeins lögð skylda á ítalska ríkið að tryggja almenn réttindi fatlaðs fólks. Dómstóllinn leggur þá sérstöku skyldu á ríkið að hlutast til um að atvinnurekendur viðhafi bæði skilvirkar og hagnýtar ráðstafanir til að tryggja sérhverjum einstaklingi aðstöðu til að taka þátt í hvers kyns störfum á vinnustaðnum. Slíkar ráðstafanir geta falið í sér að aðlaga vinnustaðinn, tækjabúnað, vinnutíma eða jafnvel úthlutun verkefna með hliðsjón af fötlun viðkomandi einstaklings.

Þess ber að geta að umrædd tilskipun hefur ekki verið lögfest hér á landi. Árið 2005 var skipaður starfshópur til að fjalla um tilskipunina. Starfshópurinn skilaði tillögum árið 2008  þar sem lagt var til að samið yrði frumvarp þar sem efni tilskipunarinnar yrði leitt í lög. Lögfesting hennar myndi auka enn frekar á réttindavernd fatlaðs fólks og því er mjög brýnt að stjórnvöld klári þá vinnu sem hafin var árið 2005.