Ég er 15 ára stelpa sem fæddist blind. Þrátt fyrir það læt ég líf mitt ekki vera mjög frábrugðið lífi annarra jafnaldra minna. Ég tel að fólk geti að vissu leyti ráðið því sjálft hversu mikið skerðing sem það er með getur háð því í lífinu. Þess vegna finnst mér rangt að alhæfa um að fólk sem er með sömu skerðingu sé allt eins því það er einfaldlega ekki þannig. Ég hef margoft lent í því að fólk haldi að ég eigi blinda vini eða að ég sé svakalega náin einhverjum blindum sem það þekkir sjálft og ég hef kannski aldrei heyrt um. Þetta getur stundum orðið mjög vandræðalegt vegna þess að fólk segir mér oft persónulega hluti um þá sem þeir halda að ég þekki svo vel. Þetta geta verið hlutir sem ég hafði ekki hugmynd um og kæri mig bara engan veginn um að heyra um fólk sem ég þekki varla. Svo þegar einhver sem þekkir til annars blinds einstaklings sér mig gera eitthvað öðruvísi en einstaklingurinn sem hann þekkir þá verður viðkomandi oft steinhissa og spyr mig af hverju ég geri þetta ekki hins veginn eins og t.d. Sigga gerir.
Svo er annað sem ég vil vekja athygli á. T.d. ef ég get eitthvað séstakt td spilað erfitt lag á píanó eða sungið eitthvað meira en gamla nóa, jafnvel ef ég fæ hærra en 6 í einkunn að þá er dáðst að mér eins og ég hafi afrekað eitthvað stórkostlegt. Þetta á við um mjög margt fólk með skerðingu því aðrir standa í þeirri trú um að „fatlað fólk“ sé svo „fatlað“ að það geti ekki gert neitt nema vera aumingjar. Það fer svo algjörlega eftir einstaklingum hversu mikill aumingi þú vilt vera. Fatlað fólk er nákvæmlega eins og annað fólk. Það er rosalega misjafnt hversu mikinn metnað og sjálfsbjargarvilja einstaklingar hafa. Þess vegna er aldrei hægt að segja að blint fólk sé svona eða hins veginn. Það er álíka fjarstæðukennt og að segja að ljóshært fólk sé allt eins.
Síðan er það annað sem samfélagið mætti að mínu mati breyta í sambandi við viðhorf gagnvart fötluðu fólki. Ég hef oft upplifað að mér sé hrósað fyrir minnstu smáatriði sem öðrum yrði aldrei hrósað fyrir, t.d. „Mikið ertu sjálfbjarga.“ Það er stundum komið fram við fatlað fólk eins og það sé annað hvort mjög treggáfað eða lítil börn. Sem dæmi veit ég um að einu sinni var sagt við blindann mann sem ég þekki: Hvernig hefur strákurinn það í dag?“ Af hverju er ekki hægt að koma fram við fólk með skerðingu, sem er alveg heilt í hausnum eins og jafningja. Það er svo oft sem er talað beinlínis niður til fatlaðs fólks, t.d. með því að koma fram við það eins og börn og halda því fram að það sé allt eins. Að mínu mati hefur fatlað fólk í gegn um tíðina ekki gert nægilega mikið til að breyta viðhorfum samfélagsins. Það fólk sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum eru oft einstaklingar sem eru oft mjög ósjálfbjarga, lifa lífi sem er mjög frábrugðið lífi annars fólks vegna skerðingarinnar og lætur þess vegna vorkenna sér. Mér finnst líka að það sama eigi við t.d. í auglýsingum og kvikmyndum. Fatlað fólk er einhvern veginn aldrei sýnt sem venjulegt fólk sem er eins og allir aðrir nema með fötlun. Þessu getum við breytt en þá verða samt allir að vinna að því markmiði, það gengur ekki að bara nokkrir gera það, heldur verður fólk að vinna saman að því.
Íva Marin Adrichem